Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Gildi lífeyrissjóði, segir að lífeyrissjóðurinn meti ávallt hvernig kaupréttarsamningar stjórnenda fari saman við hag félagsins og hluthafa.
Í tilviki Skeljungs, þar sem stjórnendur hjá félaginu seldu á dögunum hlutabréf í Skeljungi með ríflega 200 milljóna hagnaði, þá hafi legið fyrir í nokkurn tíma hvernig kaupréttarsamningum var háttað, og að töluverð virðisaukning hefði orðið í félaginu á því tímabili sem samningarnir náðu til.
Í yfirlýsingu frá forstjóra Skeljungs, Henrik Egholm, segir að hans verkefni sé fyrst og fremst að styrkja rekstur félagsins. Hagræðingar aðgerðir og uppsögn á 29 starfsmönnum standi í engu samhengi við sölu stjórnenda á hlutabréfum í félaginu.

En Gildi lífeyrissjóður er sá sjóður sem er stærstur lífeyrissjóða meðal hluthafa félagsins, með 7,12 prósent hlut.
Davíð segir mikilvægt að lífeyrissjóði velti fyrir sér kaupréttarsamningum, stærð þeirra og hvernig tengingin er útfærð við langtímahagsmuni. „Gildi veltir reglulega fyrir sér stærð kaupréttaráætlana og tengingu við langtímahagsmuni félaga og hefur líkt og aðrir hluthafar aðkomu að starfskjörum stjórnenda með afgreiðslu á starfskjarastefnum á hluthafafundum. Slíkar stefnur taka almennt fram hvort og þá við hvaða aðstæður og innan hvaða ramma heimilt er að greiða árangurstengdar launagreiðslur. Gildi hefur ekki markað sér stefnu gegn kaupréttum, en hluthafastefna sjóðsins mælir fyrir um stefnu sjóðsins hvað þetta varðar, t.d. að litið sé til langtímahagsmuna og að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra.“
Markaðsvirði Skeljungs er nú 15,1 milljarður króna, en félagið hefur hækkað í verði um ríflega 12 prósent á einum mánuði.