Að undanförnu hafa fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á síðasta þingi, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata, rætt um það hvort flötur sé á ríkisstjórnarsamstarfi milli flokkanna undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna. Til greina kæmi þá að bæta við samstarfsflokkum, Viðreisn, Miðflokki eða Flokki fólksins þar helst.
Að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag, eru helstu efasemdirnar um að þetta samstarf gangi uppi, innan Framsóknarflokksins, en greint er frá því í Fréttablaðinu í dag að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, hafi rætt saman í síma í gær.
Ekki liggur fyrir hvað fór á milli þeirra.
Fram hefur komið að fulltrúar flestra flokka á þingi, eigi í óformlegum viðræðum og þreifingum um samstarf, en mesta alvaran er sem stendur í viðræðum milli þessara flokka sem að framan greinir, en þeir mynda nauman meirihluta 32 þingmanna af 63 á þinginu.
Það mun svo skýrast í dag hvort formlegar viðræður um stjórnarsamstarf hefjast eða ekki.