Fjárfestingabankinn Kvika, ásamt hópi fjárfesta hefur keypt allt hlutafé í Kortaþjónustunni hf. (Korta) og leitt hlutafjáraukningu í félaginu. Eignarhluti Kviku verður rúmlega 40% eftir viðskiptin en aðrir hluthafar munu eiga undir 10% hlut hver í Korta.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Í henni segir að Korta sjái um greiðslumiðlun fyrir um 2.400 fyrirtæki innanlands og utan. Félagið, sem stofnað var árið 2002, hefur vaxið hratt undanfarin ár og eru starfsmenn þess um 60 talsins. Korta fékk leyfi sem greiðslustofnun frá Fjármálaeftirlitinu árið 2012 og varð í kjölfarið fullgildur aðili að VISA Europe og MasterCard International, segir í tilkynningunni.
„Við fögnum aðkomu fjársterkra hluthafa að Korta sem mun efla rekstur félagsins. Undanfarin ár hefur vöxtur félagsins verið ör og aðkoma hinna nýju eigenda mun leggja góðan grunn að áframhaldandi traustum rekstri,“ segir Jóhannes I. Kolbeinsson, forstjóri Korta, í tilkynningunni.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri, segist hlakka til þess að vinna að frekari framgangi félagsins. „Stjórnendur Korta hafa byggt upp mjög öflugt félag á spennandi markaði, sem hefur að okkar mati mikla framtíðarmöguleika. Við hlökkum til að starfa með þeim að frekari vexti félagsins,“ segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku.
Kvika hefur unnið að því að efla starfsemi sína að undanförnu. Bankinn hefur keypt Virðingu og Öldu með skömmu millibili, og er nú með heildareignir í stýringu upp á um 280 milljarða króna og markaðsvirði bankans nemur um 9 milljörðum, sé mið tekið af síðustu viðskiptum með hlutafé bankans, að því er fram kom í umfjöllun Markaðarins..
Í Markaðnum var frá því greint að einkahlutafélagið RPF, sem er í jafnri eigu Gunnars Sverris Harðarsonar og Þórarins Arnars Sævarssonar, starfsmanna fasteignasölunnar RE/MAX Senter, hafi komið í hluthafahóp Kviku fjárfestingarbanka með 1,45 prósenta hlut. Er félagið þannig orðið fjórtándi stærsti hluthafi bankans.