Afgangur af utanríkisviðskiptum hefur verið að dragast saman, sé mið tekið af því þegar miðað er við hlutfall af landsframleiðslu. Á fyrri hluta ársins var afgangurinn 20,3 milljarðar af vöru- og þjónustuviðskiptum, sem nemur um 1,7 prósent af vergri landsframleiðslu, af því er kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.
Afgangurinn er minni en á sama tíma árið 2016 en þá nam hann 2,4 prósent af vergri landsframleiðslu.
Útflutningur á fyrri hluta ársins jókst um 6,4 prósent frá síðasta ári, þar af jókst vöruútflutningur aðeins um 1,5 prosent sem má að hluta rekja til verkfalls sjómanna í upphafi ársins en það hafði umtalsverð áhrif á útflutning á sjávarafurðum til hins verra.
Vöxtur í ferðaþjónustu var sem fyrr drifkraftur útflutnings á fyrri hluta ársins, en vöxtur ferðaþjónustunnar á síðustu árum hefur verið ævintýralegur. Árið 2010 komu 450 þúsund ferðamenn til landsins, en á þessu ári er gert ráð fyrir að fjöldinn fari yfir 2.3 milljónir.
Innflutningur jókst um 10 prósent sem má rekja til mikils vaxtar þjónustuinnflutnings vegna ferðalaga Íslendinga erlendis og áframhaldandi aukningu vöruinnflutnings á öðrum ársfjórðungi þessa árs.
Spáð er 7,7 prósent aukningu útflutnings í ár sem er minni vöxtur en gert var ráð fyrir í síðustu þjóðhagsspá í maí.
Þetta má helst rekja til minni útflutnings sjávarafurða en reiknað var með og aðeins minni útflutningi á þjónustu en í síðustu spá, að því er fram kemur í þjóðhagsspánni.