Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að það séu mikil vonbrigði að ekki hafi náðst að mynda ríkisstjórn Vinstri-grænna, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Pírata að þessu sinni. „Ljóst var frá upphafi að meirihlutinn var naumur og stór verkefni framundan. Málefnalega gengu samræður þessara flokka mjög vel og ég upplifði traust á milli formannanna; mín, Sigurðar Inga, Loga og Þórhildar Sunnu. Fyrir liggur hins vegar að hinn naumi meirihluti vóg of þungt til að Framsókn treysti sér til að ljúka myndun meirihlutastjórnar. Eftir sem áður er það okkar verkefni að koma á starfhæfri ríkisstjórn fyrir fólkið í landinu.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu hennar.
Stjórnarmyndunarviðræðum fjögurra flokka var slitið fyrr í dag.
Heimildarmenn Kjarnans segja að Framsóknarflokkurinn hafi slitið viðræðunum vegna þess að hann teldi meirihluta flokkanna vera of tæpan, en saman hafa þeir 32 af 63 þingmönnum. Sú ákvörðun var tekin í morgun. Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa forsvarsmenn Framsóknarflokksins hins vegar ekki viljað taka Viðreisn inn í stjórnarsamstarfið til að tryggja stærri meirihluta.
Áhyggjur Framsóknarmanna beindust fyrst og síðast að Pírötum, sem þeir töldu að hefðu gefið of mikið eftir í stjórnarmyndunarviðræðum og að það myndi skapa vanda gagnvart baklandi þeirra þegar liði á kjörtímabilið.
Það eru mikil vonbrigði að ekki hafi náðst að mynda ríkisstjórn Vinstri-grænna, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Pírata...
Posted by Katrín Jakobsdóttir on Monday, November 6, 2017