Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, er ekki spenntur fyrir því að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins. Þetta kemur fram á mbl.is. Þar segir hann að ekki sé hægt að útiloka eitt eða neitt við myndun starfhæfrar ríkisstjórnar, en að á sama tíma hafi hann „lagt áherslu á að ríkisstjórn í landinu, til að búa til pólitískan stöðugleika, þurfi breiðari skírskotun. Ég get ekki séð að hún myndi svara því kalli.“
Framsóknarflokkurinn sleit fyrr í dag viðræðum við þrjá aðra flokka; Vinstri græn, Samfylkingu og Pírata, um myndun ríkisstjórnar sem hefði haft 32 þingmenn, eða minnsta mögulega meirihluta. Ástæðan var sú að Framsókn taldi meirihlutann of tæpan í ljósi þeirra verkefna sem væru fram undan, og töldu þar sérstaklega til komandi kjaraviðræður. Heimildarmenn Kjarnans segja að flokkurinn hafi sérstaklega ekki treyst því að Píratar myndu geta staðið á bak við fjögurra flokka ríkisstjórnina. í ljósi þeirra málamiðlana sem Píratar virtust tilbúnir að gera til að klára viðræðurnar þá skapaðist ótti við að bakland þeirra myndi telja flokkinn hafa gefið of mikið eftir. Þá gætu skapast sambærilegar aðstæður og voru uppi hjá Bjartri framtíð á síðasta kjörtímabili, sem leiddu til stjórnarslita eftir átta mánaða ríkisstjórnarsamstarf.
Sigurður Ingi segir við mbl.is að það hafi verið rætt í stjórnarmyndunarferlinu að fá fleiri flokka um borð í viðræðurnar en að niðurstaðan áður en formlegar viðræður hófust hafi verið að flækjustigið yrði of mikið ef fleiri flokkum yrði boðið í viðræðurnar.
Heimildir Kjarnans herma að stungið hafi verið upp á því að bjóða Viðreisn inn í mögulega ríkisstjórn til að koma í veg fyrir viðræðuslit en að sú tillaga hafi ekki hlotið hljómgrunn hjá Framsóknarflokknum.
Sigurður Ingi segir að boltinn sé nú hjá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, sem hafi enn stjórnarmyndunarumboð, að minnsta kosti þar til síðar í dag þegar hún fer á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands. Katrín hefur sagt að hún muni nota daginn til að kanna aðra möguleika.