Gert er ráð fyrir því í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands að það muni draga nokkuð úr hagvexti á næstu árum, en þó verður staða efnahagsmála með besta móti, sé horft til sögulegrar reynslu. Atvinnuleysi verður áfram lítið og ferðaþjónustan verður áfram verða eins og vítamínsprauta fyrir hagkerfið, en gert er ráð fyrir 3 til 5 prósent hagvexti á ári næstu fimm árin.
Gert er ráð fyrir að meðaltalsatvinnuleysi á þessu ári verði 2,7 prósent, á næsta ári um 3 prósent og fari svo lítið eitt hækkandi.
Eitt af því sem töluverð óvissa ríkir um, og nefnt er sérstaklega í þjóðhagsspánni, er þróun launa landsmanna.
Launavísitala hefur hækkað mikið á síðustu árum. Hækkunin var 5,8 prósent árið 2014,
7,2 prósent árið 2015 og 11,4 prósent árið 2016 en launavísitalan árið 2017 mun slaga í 7 prósent hækkun, að því er segir í þjóðhagsspánni.
Þetta eru miklar hækkanir sé horft til annarra tímabila í hagsögunni, en eiga sér rætur í þeirri miklu viðspyrnu og þrótti sem einkennt hefur gang efnahagsmála á Íslandi undanfarin ár. „Þessi ár hafa heildarráðstöfunartekjur og kaupmáttur sömuleiðis hækkað
mikið vegna atvinnuaukningar og lítillar verðbólgu. Nú þegar örustu hækkanirnar
virðast vera að baki er búist við að laun hækki minna næstu ár. Kaupmáttur heldur
áfram að aukast ef laun hækka umfram verðlag eins og spáð er.
Langstærstur hluti launþega er bundinn af kjarasamningum ýmist til ársloka 2018
eða út mars 2019, en allstórir hópar launþega eru þegar með lausa samninga eða
samninga sem eru við það að losna. Ríkisstarfsmenn í BHM félögum losnuðu undan
gerðardómi þann 31. ágúst síðastliðinn. Slit ríkisstjórnarsamstarfs í september
leiddi til frestunar á kjaraviðræðum og er því alls óvíst hvorum megin við áramótin
2017–2018 nýir kjarasamningar verði gerðir sem gætu gefið tóninn fyrir þá samninga
sem eftir fylgja. Óvissa um breytingar launa árið 2019 verður fyrirferðarmeiri
í efnahagshorfum á næstunni vegna þessa,“ segir í þjóðhagsspánni.
Spá Hagstofu Íslands gerir ekki ráð fyrir að hróflað verði við gildandi kjarasamningum, en endurskoðunarákvæði í þeim gerir ráð fyrir endurskoðunarmöguleika í byrjun næsta árs.