Óskar Einarsson, læknir, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna „plastbarkamálsins“ svokallaða. Hann segist engan þátt hafa tekið í undirbúningi eða framkvæmd aðgerðar, sem um er fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Landspítalans og Háskóla Íslands sem kynnt var í dag.
Yfirlýsing Óskars fer hér að neðan í heild:
„Í kjölfar þess að skýrsla nefndar Landspítala (LSH) og Háskóla Íslands (HÍ) um „plastbarkamálið” svonefnda hefur verið gerð opinber, og þar sem borið hefur á því í fréttum að ekki hafi verið greint rétt frá varðandi öll atvik hvað mig varðar, vil ég koma á framfæri nokkrum atriðum til að skýra minn þátt:
1. Ég kom ekki að þeirri ákvörðun að leitað var til Karolinska Sjúkrahúsins (KS) um annað álit (second opinion) á meðferðarúrræðum fyrir viðkomandi sjúkling.
2. Ég tók ekki þátt í undirbúningi eða framkvæmd aðgerðarinnar. Mér var ekki kunnugt um að læknar KS væru að íhuga plastbarkaígræðslu. Ég heyrði hennar fyrst getið eftir á þegar sjúklingur var fluttur á LSH til eftirmeðferðar.
3. Mér var þá falið að sinna læknismeðferð sjúklings við innlögn á lungnadeild LSH. Ég kom hvergi að þeirri ákvörðun en sá enga ástæðu til þess að víkjast undan þeim starfsskyldum. Ég nálgaðist það verkefni sem læknisverk og leit ekki á mig sem þátttakanda í vísindatilraun, enda er ráðning mín við LSH af læknisfræðilegum en ekki vísindalegum toga. Ég hafði á þessum tíma enga ástæðu til þess að draga í efa óskir skurðteymis KS um upplýsingar varðandi ástand sjúklings, þar með talið óskir um sýni frá sjúkling.
4. Ég harma að hafa ekki borið gæfu til að neita að gerast meðhöfundur að grein í læknatímaritun Lancet þegar ekki var orðið við ábendingum um breytt orðalag greinarinnar. Á þessum tíma hafði ég engar forsendur til þess að efast um heilindi greinarhöfunda og annarra sem stóðu að aðgerðinni og því ekki kunnugt um þær vísvitandi blekkingar og falsanir sem komið hafa í ljós m.a. varðandi leyfi þar til bærra aðila í Svíþjóð. Í ársbyrjun 2017 sendi ég ritstjóra Lancet erindi um að ég yrði fjarlægður sem meðhöfundur greinarinnar.
5. Ég hef aldrei haldið erindi eða verið höfundur á öðrum greinum sem fjalla um þetta efni. Ég var hvorki upplýstur um né viðstaddur málþing Háskóla Íslands vorið 2012 um stofnfrumur í skurðlækningum, í tilefni þess að ár var liðið frá umræddri plastbarkaígræðslu.
6. Ég hef aldrei hitt eða rætt við hinn umdeilda skurðlækni Macchiarini, né nokkurn úr hans rannsóknar/aðgerðarteymi annan en Tómas Guðbjartsson.
Ég mun nú gefa mér tíma til að lesa skýrslu nefndarinnar og í framhaldinu ráðfæra mig við yfirmenn mína á LSH um efni hennar.
Virðingarfyllst, Óskar Einarsson.“