Tómas Guðbjartsson hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að ákvarðanir hans í tengslum við barkaígræðsluaðgerðina hafi verið teknar í góðri trú. Hann harmi að hafa ekki sýnt meiri aðgæslu í samskiptum við Karolinska sjúkrahúsið og Paolo Macchiarini sem hann lagði of mikið traust á.
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Tómas verið sendur í leyfi frá störfum. Ákvörðun um þetta var tekin eftir að rannsóknarnefnd birti í gær niðurstöður sínar á úttekt á störfum íslenskra heilbrigðisstarfsmanna í tengslum við plastbarkamálið.
Landspítalinn greindi frá því fyrr í dag að ákveðið hefði verið að Tómas Guðbjartsson yrði í leyfi frá störfum um sinn í ljósi heildarhagsmuna.
Í tilkynningu frá spítalanum segir að hann taki niðurstöður og ábendingar nefndarinnar mjög alvarlega og muni bregðast við þeim. „Þegar hefur verið ákveðið að vísa málinu til siðfræðinefndar spítalans, taka upp samskipti við vísindasiðanefnd varðandi ábendingar skýrslunnar, m.a. um mun á gagna- og sjúklingarannsóknum sem og að taka afstöðu til tillögu skýrslunnar um bætur til ekkju sjúklingsins. Að öðru leyti mun spítalinn taka sér tíma til að rýna skýrsluna gaumgæfilega og bregðast við frekari ábendingum og málum sem upp kunna að koma í þeirri rýni.“