Þreifingar milli flokkanna á Alþingi og forystufólks þeirra benda til þess að töluverð pólitísk barátta sé nú um það hver fái umboðið til að mynda nýja ríkisstjórn, eða í það minnsta leiða hana sem forsætisráðherra.
Samskipti hafa verið milli Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins. Allir formennirnir vilja leiða ríkisstjórn þessara flokka, en hún hefði 35 þingmenn af 63 og því rúman meirihluta.
Þá hafa einnig verið viðræður milli flokkanna sem áður slitu formlegum stjórnarmyndarviðræðum, það er Vinstri grænna, Pírata, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar, og hafa samskipti við Viðreisnar, undir formennsku Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, verið þar innan sömuleiðis.
Þá hafa Miðflokkurinn, undir forystu Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, og Flokkur fólksins, undir forystu Ingu Sæland, einnig átt í samskiptum við hina ýmsu flokka.
Staðan er því flókin og margir möguleikar uppi.
Líklegt er að Vinstri græn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni ákveða í dag, eða á morgun, hvort það sé tilefni til að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður milli flokkanna, en eins og áður segir, koma fleiri leiðir til greina.