Líkamleg og sálfélagsleg heilsa karlmanna, kynlífshegðun, frjósemi og tilfinningar eru samanfléttuð. Hegðun og tilfinningatjáning karla er um margt ólík hegðun kvenna. Þó fjöldi rannsókna hafi verið birtur á undanförnum áratugum á þessu sviði vantar enn vettvang í heilbrigðiskerfinu þar sem tekið er á þessum málum á heildrænan hátt.
Þetta segir Ásgeir R. Helgason, dósent í sálfræði og lektor í samfélagslækningum við Karólinsku stofnunina í Svíþjóð og Háskólann í Reykjavík, í pistli í Læknablaðinu sem ber nafnið Karlsjúkdómalækningar.
Hann bendir á að víða hafi vaxið fram sérstakar móttökur fyrir karlmenn en þar snúist starfsemin oftar en ekki um afbrigðilega hegðun takmarkaðs hóps karlmanna. Karlmaðurinn sé þar skilgreindur sem vandamál, einkum fyrir konur og börn.
Að hans mati vantar móttökur þar sem vandamál karlmannanna sjálfra eru í brennidepli. „Sértæk vandamál karla eru af mörgum toga. Karlmenn lifa skemur en konur, eru áhættusæknari og margvíslegir sjúkdómar leggjast frekar á karlmenn. Karlmenn taka oftar eigið líf og eykst tíðni sjálfsvíga með hækkandi aldri. Karlmenn glíma oft við ófrjósemi og hormónatengd vandamál. Margir karlmenn líða vegna risvandamála sem geta átt sér sálrænar, félagslegar og líkamlegar skýringar. Risvandamál eru algengasta aukaverkun meðferðar við krabbameini í blöðruhálskirtli, sem er algengasta krabbamein karla. Lífsgæði karla með risvandamál eru verulega skert og skiptir þá litlu hver orsökin er,“ segir hann og bætir við að einnig sé tilfinningaleg einangrun mun algengari meðal karla en kvenna.
Tilfinningaleg einangrun
Ásgeir segir jafnframt að sum vandamál karla eigi sér líklega frekar rætur í karlmennskuhlutverkinu en karlkyninu. Þó tilfinningaleg einangrun sé mun algengari hjá körlum sé hún líka þekkt hjá konum. Það bendi til þess að takmörkuð djúp tilfinningatengsl geti verið afsprengi mismunandi kynjahlutverka frekan en gena. Heilt fræðasvið „kynjafræði“, hafi verið að ryðja sér til rúms á undanförnum áratugum. Þar sé þó höfuðáherslan lögð á rannsóknir á konum og kvenhlutverkinu. Kynjafræðin eigi því mikið óunnið á sviði karlarannsókna.
„Einn af hverjum 5 karlmönnum sem eru 50 ára og eldri eru tilfinningalega einangraðir og þeir sem hafa einhvern að deila erfiðum tilfinningum með, deila þeim aðeins með maka sínum. Séu karlmenn ekki í föstu sambandi eru 7 af hverjum 10 algerlega tilfinningalega einangraðir. Þessar tölur gilda líka fyrir karlmenn sem eru að glíma við lífshættulega sjúkdóma,“ segir hann. Þannig væri engin munur á svörum heilbrigðra karla og þeirra sem greinst höfðu með krabbamein. Rannsóknir hafi leitt í ljós að tilfinningaleg einangrun dregur úr lífsgæðum. Eins sé líklegt að tilfinningaleg einangrun geti ýtt undir óheilbrigðari lífsstíl, jafnvel sjálfsvíg, og að ofsafengin tilfinningaviðbrögð í aðdraganda og kjölfar skilnaðar megi að hluta rekja til ótta við tilfinningalega einangrun.
Hann segir í pistlinum að honum vitanlega sé ekkert íslenskt orð til fyrir enska orðið andrology. „Í ensku WikiPedia er það skilgreint sem það svið innan læknisfræðinnar sem fæst við heilsu karlmanna, einkum vandamál tengd æxlunar, kyn- og þvagfærum. Í nýrri sænskri kennslubók um karlsjúkdómafræði fyrir læknanema er sálfélagslegum og tilfinningalegum vandamálum sem eru algengari hjá karlmönnum, bætt við sem mikilvægum þætti í karlsjúkdómalækningum. Ólíkt kvensjúkdómalækningum, sem eru sérgrein innan læknisfræðinnar, hafa karlsjúkdómalækningar ekki enn skapað sér sess sem sérfræðigrein,“ segir hann og bætir við að þær séu ýmist skilgreindar sem undirgrein þvagfæralækninga eða innkirtlafræði. Hvorugt þessara sviða rúmi þó öll þau fjölþættu verkefni sem falla undir hugtakið. Í dag starfi nokkrir læknar á Norðurlöndum á sviði karlsjúkdómalækninga, en enn sé engin formleg skilgreining til sem lýsir verksviðinu.
Sálfélagslegur stuðningur
Ásgeir bendir á að karlar nýti illa þann sálfélagslega stuðning sem boðið er uppá á stærri sjúkrahúsum þegar glímt er við erfiða sjúkdóma. Þeir treysti áfram aðallega á þann stuðning sem þeir fá frá sambýliskonum sínum. Þetta skapi mikið álag fyrir konuna sem þarf bæði að styðja maka sinn og glíma við eigin áhyggjur. Á síðari árum hafi ítrekað verið reynt að fá fleiri karlmenn til að nýta betur sálfélagslegan stuðning, meðal annars með því að kalla starfsemina eitthvað annað en stuðning t.d. „hagnýta ráðgjöf“ eða „námskeið“.
„Jafnvel þó námskeiðin innihaldi að stórum hluta það sama og sálfélagslegi stuðningurinn virðast karlar frekar mæta sé stuðningurinn kallaður hagnýt ráð. Það skiptir sem sagt máli hvað við köllum hlutina. Karlmenn vilja frekar lausnamiðaðan stuðning þar sem þeir leita svara við einhverju tilteknu vandamáli. Klínísk reynsla sýnir einnig að karlmenn sem taka þátt í slíkum námskeiðum taka því yfirleitt mjög vel þegar samtalið berst að sálfélagslegum stuðningi og kunna þrátt fyrir allt vel að meta þann þátt námskeiðsins,“ segir hann í pistlinum.
Hann telur enn fremur að karlmenn nálgist vandamál á lausnamiðaðan hátt og það eigi jafnvel við um dauðann. Þeir hefji sjaldan sjálfir umræður við fagfólk á sjúkrastofnunum varðandi áhyggjur tengdar eigin yfirvofandi dauða. Hins vegar taki þeir því oftast vel ef þeir fá tækifæri til að ræða málið. Þá skipti meginmáli að sá sem þeir tala við hafi lag á því að bjóða uppá slíkt samtal, án þess að þröngva því uppá viðkomandi og ganga yfir persónumörk hans. Karlmenn syrgi líka oft á annan hátt en konur. Þeir loki sig af og reyni að leita lausna til að halda áfram að lifa þrátt fyrir sorgina. Í stuttu máli eigi karlmenn oft erfitt með að tjá tilfinningar sínar, en rannsóknir hafi þó sýnt að það er hægt að komast inn fyrir skelina með réttu viðmóti.
Karlamóttaka
Að endingu veltir Ásgeir því fyrir sér hvort ef til vill sé tími til kominn að huga að því að hvort opna eigi móttöku fyrir karlmenn við stærri sjúkrahús. „Móttöku þar sem karlmenn fengju eðlilegan vettvang innan heilbrigðiskerfisins sem væri eðlilegur inngangur fyrir karlmanninn inn í heilbrigðiskerfið. Þar sem stundað væri forvarnastarf sem tekur mið af sérþörfum karla og körlum mætt á þann hátt sem tekur mið af karllægri hegðun og tjáningarmáta karla,“ segir hann.
Hann telur að oft þurfi ekki að gera flóknar og viðamiklar breytingar til að aðlaga stuðning að karllægri hegðun og gildum. En að því sögðu krefjist það bæði þekkingar og reynslu að veita stuðning og ráðgjöf. Það sé alls ekki á allra færi að hefja samtal um dauðann, kynlíf, kynhegðun og erfiðar tilfinningar. Til þess þurfi bæði þekkingu, þjálfun, klíníska reynslu og ekki síst lífsreynslu. Þjálfun í samtalsfærni taki tíma og krefst virkrar handleiðslu. Til að tryggja það að slík þekking og reynsla þróist og flytjist milli kynslóða, þurfi að skapa vettvang innan heilbrigðiskerfisins sem sinnir körlum á forsendum karla.
Hægt er að lesa pistil Ásgeirs á vefsíðu Læknablaðsins en þar er einnig að finna þær heimildir sem hann notar við skrifin.