Erdogan Tyrklandsforseti og stjórnvöld í Tyrklandi vildu fá aðstoð frá Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Donalds J. Trump Bandaríkjaforseta, við að ræna Fethullah Gülen, andófsmanninum sem Erdogan hefur sagt að sé helsti andstæðingur hans sem hafi meðal annars skipulagt valdaránstilraun sem mistókst.
Í umfjöllun Wall Street Journal í dag, segir að Flynn hafi átt að fá um 15 milljónir Bandaríkjadala, tæplega 1,6 milljarða króna, fyrir að hjálpa til við að skipuleggja ránið, koma honum í flugvél og fara með hann til Tyrklands.
Þetta er eitt þeirra atriða sem Robert Mueller, settur saksóknari í rannsókn á tengslum kosningaframboðs Trumps við yfirvöld í Rússlandi, er að skoða.
Í rannsókn hans hafa einnig komið upp fleiri atriði, sem hann og teymi hans eru nú með til rannsóknar, að því er kemur fram í umfjöllun Wall Street Journal.
Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trumps, hefur verið ákærður fyrir peningaþvætti og samsæri gegn Bandaríkjunum, meðal annars með því að starfa fyrir erlend ríki og halda peningum frá yfirvöldum með hjálp aflandsfélaga. Fyrrverandi ráðgjafi Trumps í utanríkismálum, George Papadopoulos, hefur viðurkennt að hafa gerst sekur um að segja FBI ósatt.
Samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal þá er talið að nú þegar liggi fyrir nægar sannanir fyrir því að ákæra Flynn og son hans, Michael Flynn Jr., og þá meðal annars fyrir landráð, með því að vinna með og aðstoða önnur ríki við lögbrot í Bandaríkjunum.
Rannsóknin á Flynn beinist meðal annars störfum hans og tengslum við rússnesk yfirvöld, en fyrir liggur að hann ræddi um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum, við sendiherra Rússland í Bandaríkjunum, Sergey Kislyak, skömmu eftir kosningasigur Trumps, og einnig áður en hann var kosinn. Hann þurfti meðal annars að hætta sem þjóðaröryggisráðgjafa, eftir aðeins 20 daga í embætti, vegna þessa, en Mike Pence, varaforseti, krafðist þess að hann myndi hætta eftir að það kom í ljós að hann hafði sagt Trump og Pence ósatt um það sem fór á milli hans og Kislyak.