Eigendur Bakkavarar, Ágúst og Lýður Guðmundssynir ásamt vogunarsjóðnum Baupost, munu fá greiddar 158 milljónir punda þegar félagið verður skráð á markað í London á fimmtudaginn, jafnvirði 21 milljarðs króna.
Þetta kemur fram í umfjöllun Financial Times. Markaðsvirði félagsins er við skráningu ríflega einn milljarður punda, eða sem nemur 143 milljörðum króna.
Greint var frá því í gær að hluthafar fyrirtækisins hefðu ákveðið skrá félagið á markað, og halda þannig áformum um slíkt til streitu. Í síðustu viku var í tilkynningu greint frá því ekkert yrði af skráningunni, en hluthafar ákváðu síðar að halda sig við skráningunni og verða hlutabréf fyrirtækisins tekin til viðskipta 16. nóvember.
Fjárfestum býðst um fjórðungshlutur í fyrirtækinu en Ágúst og Lýður eiga 59 prósent hlut í félaginu en Baupost Group 41 prósent. Sé mið tekið af þeim hlutföllum fara um 12,7 milljarðar í hlut Ágúst og Lýðs.
Skráningin markar tímamót í sögu Bakkavarar, en á þessu ári eru 31 ár frá því að Ágúst og Lýður stofnuðu félagið. Undanfarin ár hafa verið mikil rússíbanareið fyrir fyrirtækið og hluthafa þess, eins og rakið hefur verið í fréttaskýringum á vef Kjarnans.
Óhætt er að segja að Ágúst og Lýður, ásamt Baupost, hafi náð að gera sér mun meiri verðmæti úr hlutnum í Bakkavör en Arion banki og íslenskir lífeyrissjóðir gerðu eftir hrunið.
Í janúar 2016 var send tilkynning til fjölmiðla um að BG12 ehf., félag í eigu Arion banka, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóðs, fleiri minni lífeyrissjóða og fagfjárfesta hefði selt 46 prósent hlut sinn í Bakkavör til félags sem er í eigu bræðranna Ágústar og Lýðs og bandarískra fjárfestingasjóða í stýringu hjá Baupost Group L.L.C.
Kaupverðið nam 147 milljónum punda, um 20 milljörðum króna.
Sameinaði lífeyrissjóðurinn og dótturfélag Klakka seldu jafnframt sinn fimm prósent hlut í Bakkavör Group og má ætla að kaupverðið hafi verið um þrír milljarðar króna. Kaupendur skuldbundu sig til að leggja fram kauptilboð í alla aðra útistandandi hluti í félaginu, rétt um ellefu prósent, á sömu kjörum, og gerðu þeir það að lokum.
Nú við skráningu félagsins er verðmiðinn meira en þrefalt hærri en sá sem Arion banki og íslenskir lífeyrissjóðir miðuðu við þegar hluturinn var seldur. Miðað við söluverðið í janúar í fyrrra þá var verðmiðinn á Bakkavör um 319 milljónir punda, en við skráningu á fimmtudaginn verður hann ríflega einn milljarður punda, eins og áður segir.