Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, segir að hann og Vladímir Pútín, forseti Rússlandi, hafi átt gott samtal í Asíuferð hans, en þeir tóku þátt í Apec-fundinum í Víetnam. Á honum var meðal annars rætt um efnahagslegan uppgang í Asíu og hvernig horfurnar væru til framtíðar litið, meðal annars með tilliti til aukinnar þátttöku erlendra fjárfesta.
Trump tjáði sig um samskipti sín við Pútín á Twitter, eins og við var að búast, og lét þar andstæðinga sína finna fyrir því með vel völdum orðum. Sagði hann meðal annars að andstæðingar hans gætu ekki sætt sig við það, að hann vildi halda sambandinu við Pútín góðu. Fram kemur í umfjöllun BBC að Trump og Pútín hafi rætt um rannsóknina á afskiptum Rússa af kosningunum í Bandaríkjunum og stöðu mála í Sýrlandi.
„Hann sagðist alls ekki hafa skipt sér af kosningunum,“ sagði Trump meðal annars um samtal sitt við Pútín. Hann ítrekaði síðan, engu að síður, að hann hefði fullt traust á leyniþjónustustofnunum Bandaríkjanna.
Met with President Putin of Russia who was at #APEC meetings. Good discussions on Syria. Hope for his help to solve, along with China the dangerous North Korea crisis. Progress being made.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 12, 2017
Robert Mueller, sérstakur saksóknari, stýrir nú rannsókn á afskiptum Rússa af kosningunum í Bandaríkjunum í fyrra og einnig hvort framboð Trumps hafi með einhverjum hætti verið í samskiptum rússnesk yfirvöld.
Nú þegar hafa fyrstu ákærurnar birst, sem byggja á rannsókninni, en þær beinast að Paul Manafort, sem var um tíma kosningastjóri Trumps, og viðskiptafélaga hans. Þeir eru ákærðir fyrir samsæri og peningaþvætti, með annars með því að nýta aflandsfélög í tengslum við samstarf við yfirvöld í Úkraínu.
Þá hefur Wall Street Journal greint frá því að teymi Muellers hafi nú Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trumps, til rannsóknar og er talið að nægilegar sannanir liggir nú fyrir, til að ákæra hann og son hans, Michael Flynn Jr.