Meirihluti þingflokks Vinstri grænna styður að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.
Tveir þingmenn flokksins eru á móti viðræðunum, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn reiðubúinn til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna við Vinstri græn og Framsóknarflokk, í viðtali á RÚV. Samhljómur sé milli flokkanna þótt áherslurnar séu ólíkar. Þá segist hann opinn fyrir viðræðum um það hver leiði ríkisstjórnina, verði af viðræðum. Ekki væri ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn gerði kröfu um fleiri ráðherrastóla á móti.
Þingflokkur Vinstri grænna fundaði í rúma fjóra tíma í gær án þess að komast að niðurstöðu um málið. Ákveðið var að funda á ný klukkan 13 í dag og niðurstaða þess fundar var að níu af ellefu þingmönnum flokksins studdu að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.
Ljóst var fyrir fundinn að Rósa Björk Brynjólfsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi, yrði líklega á móti því að fara í þessar viðræður. Hún birti eftirfarandi tíst í morgun:
#höfumhátt https://t.co/DjYGicr1ZE
— Rósa Björk B (@RosaBjorkB) November 13, 2017