Fjármálaeftirlitið samþykkt 10. nóvember 2017 síðastliðinn samruna Kviku banka við Virðingu. Fjármálafyrirtækin verða sameinuð undir nafni Kviku og samruninn tekur gildi frá og með 18. nóvember 2017. Þetta kemur fram í frétt á vef Fjármálaeftirlitisins.
Í lok júní var greint frá því að eigendur 96,69 prósent hlutafjár í Virðingu hefðu samþykkt tilboð stjórnar Kviku í hlutafé fyrirtækisins, en skilyrði var að tilboðið yrði samþykkt af eigendum meira en 90 prósent hlutafjár. Kaupverð nam 2.560 milljónum króna og verður greitt með reiðufé. Viðskiptin voru þó bundin fyrirvara um samþykkt eftirlitsaðila.
Höfðu reynt áður
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem reynt er að sameina Virðingu og Kviku. Stjórnir Virðingar og Kviku undirrituðu í nóvember 2016 viljayfirlýsingu um að undirbúa samruna félaganna tveggja undir nafni Kviku. Í aðdraganda sameiningar átti að lækka eigið fé Kviku um 600 milljónir króna og greiða lækkunina til hluthafa bankans. Hluthafar Kviku áttu eftir samruna að eiga 70 prósent hlut í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30 prósent hlut. Viðræðurnar gengu hins vegar erfiðlega og í lok mars var tilkynnt að stjórnir Kviku og Virðingar hefðu tekið sameiginlega ákvörðun um að slíta viðræðum um sameiningu félaganna.
Kvika banki hagnaðist um tæpa tvo milljarða króna í fyrra eftir skatta og arðsemi eiginfjár hjá bankanum var 34,7 prósent. Eignir Kviku drógust saman á árinu um þrjú prósent og voru 59,5 milljarðar króna um síðustu áramót. Eigið fé bankans var 7,3 milljarðar króna og jókst á árinu þrátt fyrir að hlutafé hafi verið lækkað um milljarð króna á fyrri hluta síðasta árs. Eiginfjárhlutfallið var 20,6 prósent í lok árs 2016.
Eigandi Virðingar ráðinn forstjóri Kviku
Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Kaupþings Singer & Friedlander í Bretlandi og stjórnandi hjá Virðingu, var ráðinn forstjóri Kviku banka í byrjun maí. Hann tók við starfinu af Sigurði Atla Jónssyni sem sagði starfi sínu lausu skömmu áður. Þá var Marinó Örn Tryggvason ráðinn aðstoðarforstjóri bankans.
Ármann hafði starfað hjá Virðingu í tvö ár, síðast sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar. Ármann er ásamt meðfjárfestum sínum fimmti stærsti eigandi Virðingar í gegnum félagið MBA Capital ehf., en það á 4,66 prósent hlut í fyrirtækinu.