Rósa Björk Brynjólfsdóttir, annar þeirra þingmanna Vinstri grænna sem greiddu atkvæði gegn yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum, segir að vantraust sitt í garð Sjálfstæðisflokksins byggi á því hvernig forystufólk í þeim flokki hafi handleikið uppreist-æru málið. „Sem femínisti og þingmaður flokks sem kennir sig við femínisma, á ég mjög erfitt með að horfa fram hjá því erfiða máli. Vantraustið byggir líka á spillingarmálunum sem upp komu fyrir aðeins ári síðan vegna Panamaskjalanna og fleiri viðskiptatengdra mála sem umlykja formann Sjálfstæðisflokkinn. Ég get ekki sannfæringar minnar vegna stutt það að fara í formlegar viðræður við flokk sem hefur sýnt alvarlegan siðferðisbrest á undanförnum árum í fjölmörgum málum. Það er erfitt að horfa framhjá því og ég held að þjóðin hefði gott af því að fá frí frá spillingarmálum og gamaldags hagsmunapólitík.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook.
Þingflokkur Vinstri grænna samþykkti í gær að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Sú ákvörðun var samþykkt með níu atkvæðum gegn tveimur. Auk Rósu Bjarkar lagðist Andrés Ingi Jónsson gegn viðræðunum.
Rósa Björk segir að hún vilji að Vinstri græn hafi áhrif og að hún muni taka afstöðu til málefnasamnings þegar hann liggi fyrir. „ Ég er ekki sannfærð um að með þessa viðmælendur við borðið, nái VG nægilega góðum málefnasamningi fyrir sitt leyti og fyrir sína skýru stefnu í umhverfismálum, jafnréttismálum eða í stjórnarskrárbreytingum. Málefnasamningi sem tryggir nægjanlega innspýtingu inn í heilbrigðiskerfið, manneskjulegri áherslur á lífsgæði öryrkja og aldraðra, sem tryggir víðsýnni stefnu í útlendingamálum og ábyrgum áherslum okkar í tekjuöflun. En ég vona það sannarlega og ítreka að ég treysti Katrínu Jakobsdóttur fullkomlega til að reyna sitt allra besta til þess að ná góðum samningi, enda frábær stjórnmálakona sem á að sjálfsögðu að leiða nú þegar þessar formlegu viðræður.“
Kemst loks að tölvu eftir viðburðaríkan gærdag og endalaus símtöl. Eins og flestum er kunnugt um greiddum við Andrés...
Posted by Rósa Björk Brynjólfsdóttir on Tuesday, November 14, 2017
Andrés Ingi tjáði sig einnig um sína ákvörðun á Facebook í dag. Þar segir ann að það hafi ekki verið auðveld ákvörðun að greiða atkvæði gegn tillögu um stjórnarmyndun. „En eftir óformlegar viðræður milli Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fannst mér ekki nóg fast í hendi til að ég treysti mér til að styðja áframhaldandi viðræður. Á þeim tíma sem er liðinn hef ég styrkst í þeirri trú minni að þetta hafi verið rétt ákvörðun.“
Andrés Ingi segist þó bera fullt traust til þeirra sem taki þátt í stjórnarmyndunarviðræðum fyrir hönd Vinstri grænna til að halda málefnum flokksins hátt á lofti og ná sem bestum samningi. „Þegar upp er staðið snýst verkefnið um að tryggja stefnu Vinstri grænna framgang, samfélaginu til góða - og þar er ég á sömu síðu og allir aðrir í þingflokknum. Það fer hins vegar eftir því hversu móttækilegir viðsemjendurnir eru hvort málefnasamningurinn verði ásættanlegur.“
Gærdagurinn var heldur betur áhugaverður fyrir okkur Vinstri græn! Það var ekki auðveld ákvörðun að greiða atkvæði...
Posted by Andrés Ingi á þingi on Tuesday, November 14, 2017