Hagnaður Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 nam 10,4 milljörðum króna samanborið við 17,3 milljarða króna á sama tímabili 2016. Mikill munur milli ára markast ekki síst af niðurfærslum á lánum vegna starfsemi United Silicon í Helguvík, en Arion banki hefur fært niður lán upp á 4,8 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins og á útistandandi skuldbindingu upp á 5,4 milljarða vegna verkefnisins. Þá hefur bankinn ásamt lífeyrissjóðum, sem settu fjármagn í verkefnið, tekið yfir eignarhaldið að mestu leyti.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir í tilkynningu vegna uppgjörsins, að þrátt fyrir allt þá sé grunnrekstur bankans traustur. „Fjárhagsstaða bankans er áfram sterk og eiginfjárhlutfall er 27,1%. Afkoman markast hins vegar talsvert af neikvæðum áhrifum tengdum lánveitingum til United Silicon og hlutabréfaeign í félaginu. Arion banki hefur fært niður lán til félagsins að hluta og hlutabréfaeign sína að fullu. Það er um ár síðan verksmiðja United Silicon var gangsett og fljótlega kom í ljós að óreiða var á starfsemi félagsins. Nú liggur jafnframt fyrir að verksmiðjan var ekki fullkláruð þegar hún var gangsett. Arion banki hefur því þurft að koma að starfsemi félagsins í æ ríkari mæli og er í dag stærsti hluthafi þess. Neikvæð áhrif vegna United Silicon nema ríflega 2% af eigin fé bankans og niðurfærsla lána nemur innan við 0,4% af lánabók bankans. Útistandandi skuldbinding nemur um 5,4 milljörðum króna sem er um 0,5% af efnahag bankans,“ segir Höskuldur.
Sé horft sérstaklega á þriðja ársfjórðung þá var tap af rekstri Arion banka upp á 113 milljónir króna, og munar þar mest um niðurfærslu lána til United Silicon upp á 3,7 milljarða króna.
Eins og kunnugt er hefur gengið á ýmsu í starfsemi United Silicon en Umhverfisstofnun lét loka starfsemina. Þá hefur fyrrverandi forstjóri félagsins, Magnús Garðarsson, verið kærður til héraðssaksóknara vegna meintra brota í starfsemi félagsins, og eru þau mál sem að honum snúa nú til rannsóknar.
Heildareignir námu 1.144,9 milljörðum króna í lok september samanborið við 1.036,0 milljarða króna í árslok 2016 og eigið fé hluthafa bankans nam 221,5 milljarði króna í lok september, samanborið við 211,2 milljarða króna í árslok 2016.
Íslenska ríkið á 13 prósent hlut í bankanum.