Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segist ekki hafa hug á því að fjölga ráðherrum í ríkisstjórninni umfram það sem nú er. Þetta segir hún í samtali við RÚV fyrir fund leiðtoga þeirra flokka sem nú reyna að mynda ríkisstjórn í ráðherrabústaðnum í dag.
Katrín segir að samstaða sé milli hennar og leiðtoga Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að breyta þurfi vinnubrögðum á Alþingi og að þar þurfi allir að leggja sitt að mörkum, bæði meirihluti og minnihluti. Hún segist leggja mikla áherslu á að kynjahlutföll í væntanlegri ríkisstjórn verði sem jöfnust en ráðherrar eru sem stendur ellefu talsins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við sama tilefni að málefnasamningur flokkanna þriggja gæti klárast um helgina. Hann segir bjartsýni ríkja í samtölum leiðtoga flokkanna þriggja og að þau séu í þeim viðræðum sem standi yfir til þess að ná málum saman. Ekki sé þó hægt að útiloka að eitthvað komi upp á en Bjarna finnst viðræðurnar ganga ágætlega.
Aðspurður um hvort enn sé gengið út frá því að Katrín verði forsætisráðherra sagði Bjarni að það hafi verið á meðal þess sem rætt hafi verið um. Á móti þyki honum eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn fái fleiri ráðherrastóla. Bjarni sagði að ef saman næst ætti stjórnarsáttmáli að verða kynntur eftir helgi.