Stefnt er að því að skýrsla um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla verði birt fyrir áramót. Þetta er haft eftir Björgvini Guðmundssyni, formanni nefndar sem vinnur að gerð skýrslunnar, á mbl.is.
Þar segir Björgvin að tillögur nefndarinnar liggi fyrir en að ekki sé búið að ganga frá skýrslunni. Hún veðri afhent mennta- og menningarmálaráðherra þegar skýrslan er tilbúin.
Kjarninn greindi frá því um miðjan ágúst að megindrög skýrslunnar væru tilbúin og drög að tillögum lægju fyrir en þau væru þá ósamþykkt innan nefndarinnar. Björgvin sagði þá að engar deilur hefðu verið innan nefndarinnar en komast hefði þurft að samkomulagi um hverjar tillögurnar ættu að vera og birta síðan skýrsluna eftir að hún hefði verið kynnt fyrir mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, skipaði nefndina í árslok í fyrra. Kjarninn greindi frá því um miðjan júní að unnið væri að frágangi skýrslunnar, samkvæmt svörum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Stefnt yrði að því að niðurstöður úr vinnu nefndarinnar myndu verða kynntar fyrir sumarleyfi, eða fyrir júnílok. Sú dagsetning stóðst ekki.
Nefndin hefur ekki haft neinn starfsmann og þar sem nefndarmenn eru allir í öðrum störfum, og flestir að sinna nefndarstarfinu utan síns vinnutíma, þá greindi Björgvin frá því við Kjarnann í júní að hann hefði óskað eftir aðstoð frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu við upplýsingaöflun, aðstoð við úrvinnslu gagna, undirbúning og frágang. „Vegna anna í ráðuneyti var erfitt að koma því við en ég fór þá fram á að geta sótt aðstoð til KOM og undirverktaka þegar á þyrfti. Það hef ég gert.“ Björgvin staðfesti einnig að KOM hafi fengið Gísla Frey Valdórsson, ritstjóra Þjóðmála og fyrrverandi aðstoðarmann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi innanríkisráðherra, til að vinna afmarkað verkefni fyrir nefndina.
Í skipanabréfi nefndarinnar kom fram að sérstök þóknananefnd ákvarði greiðslur fyrir þá vinnu sem unnin er fyrir nefndina. Því liggur ekki fyrir hvað greitt verður fyrir aðkeypta þjónustu vegna upplýsingaöflunar, aðstoð við úrvinnslu gagna, undirbúning og frágang.
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, var gestur sjónvarpsþáttarins Kjarnans um miðjan maí og ræddi þar fjölmiðlaumhverfið á Íslandi. Þar sagðist hann hafa áhyggjur af stöðu þess. „Við erum í uppsveiflu og þetta ætti að geta gengið þokkalega vel. Ég hef verulegar áhyggjur af því að þegar niðursveiflan kemur þá þrengi enn meira að þessu starfi,“ sagði hann. Kristján Þór sagðist telja það skynsamlegt að skoða rekstrarumhverfið út frá skattalega þættinum. „Skoða skattkerfið og ívilnanir þar til prentmiðla, til vefmiðla þess vegna, og svo framvegis.“