Reykjavíkurborg ætlar að fjölga félagslegum íbúðum um 600 á næstu fimm árum. Á síðustu vikum hefur borgin keypt um 85 íbúðir til að bæta við slíkum auk þess sem Félagsbústaðir, sem eru í eigu borgarinnar, hafa á sama tíma yfir 50. Frá þessu greinir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut í kvöld.
Um síðustu áramót átti Reykjavíkurborg 2.445 félagslegar íbúðir. Ljóst er að þeim hefur fjölgað um á annað hundrað í ár. Til samanburðar áttu þau nágrannasveitafélög höfuðborgarinnar sem koma þar næst, Kópavogur (436 félagslegar íbúðir) og Hafnarfjörður (245 félagslegar íbúðir) samtals 681 félagslega íbúð í lok síðasta árs. Í Garðabæ eru 35 slíkar, 30 í Mosfellsbæ og 16 á Seltjarnarnesi. Því hefur Reykjavíkurborg, ásamt Félagsbústöðum, keypti næstum tvöfalt fleiri íbúðir á allra síðustu vikum sem munu nýtast þeim sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda en Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes áttu samtals í heild um síðustu áramót.
Dagur segir að þrátt fyrir að Reykjavíkurborg sé með miklu meira af félagslegum íbúðum en hin sveitarfélögin vilji borgin, og líti á það sem skyldu sína, svara þeim hluta samfélagsins sem sé að klemmast. „Við verðum bara að viðurkenna það að þó að ýmislegt gangi vel í efnahagsmálum, þótt það sé uppsveifla og lítið atvinnuleysi, þá er fasteignaverð að hækka þannig, og leiguverð er að hækka þannig, að það er ákveðinn hluti samfélagsins sem er að klemmast á milli. Þar verða sveitarfélögin og opinberir aðilar að stíga inn.“