Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að ef borgin bæti bara við nýjum hverfum í útjaðri sínum muni tafatími í umferðinni verða mun meiri en hann er nú þegar. Hann segir að ef það séu einhverjir sem hafi ríka hagsmuni af því að almenningssamgöngur verði efldar, til dæmis með lagningu Borgarlínu, þá séu það þeir sem ætla sér áfram að nota bíl. Reykjavíkurborg, nágrannasveitarfélög höfuðborgarinnar og Vegagerðin séu samstíga í þessum málum vegna þess að allar greiningar sýni að hagsmunir allra fari saman í grænum áherslum í umferðarmálum.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í ítarlegu viðtali við Dag í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut klukkan 21 í kvöld.
Aðspurður um umferðarmál segir Dagur að það þurfi bæði að þétta byggð þannig að ferðir fólks og annarra milli heimilis og vinnu styttist og til þess að fólk taki almennt minna pláss í umferðarkerfinu. „Við þurfum að stórefla almenningssamgöngur til þess að fólk eigi þann valkost að komast hratt og vel með almenningssamgöngum, en líka til þess að plássið á götunum, fyrir þá sem áfram vilja keyra, verði til staðar. Ef það eru einhverjir sem hafa ríka hagsmuni af því að við eflum almenningssamöngur – að þeir sem vilji geti hjólað eða gengið – þá eru það þeir sem ætla áfram að nota bíl. Þetta samhengi er svo mikilvægt að allir skilji.
Hann vonast til þess að það samstarf sem myndast hafi milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar í þessum málum haldist í gegnum sveitarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Það sé þó freisting fyrir einhverja stjórnmálaflokka að taka slag um þetta. „Gögnin og tölurnar tala svo skýrt þessu máli að ég bind góðar vonir við að þetta einfaldlega bara verði.“