Bankaráð Seðlabanka Íslands kom saman til fundar í gær til að ræða birtingu Morgunblaðsins á símtali Davíðs Oddssonar, þáverandi bankastjóra Seðlabankans, og Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra, frá 6. október 2008.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þórunn Guðmundsdóttir, formaður bankaráðs, segir að fundarmenn hafi fengið upplýsingar um símtalið en bankinn sé að kanna hvernig það lak til blaðsins.
„Við fengum fullt af upplýsingum en eins og komið hefur fram í fréttum er bankinn enn að skoða málið,“ segir Þórunn.
Eins og fram hefur komið hefur Kjarninn stefnt Seðlabankanum vegna þess að bankinn neitaði að afhenda upplýsingar um símtalið.
Kjarninn óskaði eftir því með tölvupósti þann 6. september 2017 að fá aðgang að hljóðrituninni. Tilgangurinn var að upplýsa almenning um liðna atburði og vegna þess að framundan var birting á tveimur skýrslum, þar af önnur sem unnin er af Seðlabankanum, þar sem atburðir tengdir símtalinu verða til umfjöllunar.
Beiðnin var rökstudd með því að um væri að ræða einn þýðingarmesta atburð í nútíma hagsögu sem hefði haft í för með sér afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskan almenning. Þá var einnig vísað til þess að nú væru að koma út tvær skýrslur þar sem lánveitingin til Kaupþings væri til umfjöllunar, annars vegar á vegum Seðlabanka Íslands og hins vegar á vegum Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors.
Seðlabankinn hafnaði beiðninni þann 14. september síðastliðinn og byggði þá ákvörðun einvörðungu á því að þagnarskylda hvíldi yfir umræddum upplýsingum.
Kjarninn ákvað í kjölfarið að stefna Seðlabanka Íslands fyrir dómstóla til að reyna að fá ákvörðun Seðlabankans hnekkt og rétt sinn til að nálgast ofangreindar upplýsingar viðurkenndan á grundvelli upplýsingalaga. Í stefnu Kjarnans segir m.a.: „Þá telur stefnandi að við mat á beiðni hans á afhendingu gagnanna þurfi að líta til stöðu og skyldna stefnanda sem fjölmiðils í lýðræðissamfélagi. Réttur fjölmiðla til þess að taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum skiptir meginmáli fyrir almenning. Beiðni stefnanda lýtur að umræðum valdhafa um umfangsmiklar efnahagsaðgerðir sem snertu allan almenning. Það er hornsteinn lýðræðis og forsenda réttarríkis að fjölmiðlar fjalli um brýn málefni með sjálfstæðum rannsóknum á upplýsandi hátt. Svo hægt sé að fjalla um þessi málefni er nauðsynlegt að réttur til upplýsinga sé tryggður með fullnægjandi hætti og að takmarkanir á þeim rétti séu ekki túlkaðar með rýmkandi hætti.“
Stefnan var birt fyrirsvarsmanni Seðlabankans í lokt október og hún lögð fram í héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag.