Björt Ólafsdóttir, starfandi umhverfisráðherra, segir að hún hafi viljað klárað sín verk í ráðuneytinu á tveimur árum en ekki fjórum vegna þess að hún vissi að það yrðu hneykslismál sem erfitt yrði að takast á við. „Ég var í kapphlaupi við tímann því ég vissi að eitthvað mannlegt myndi koma uppá og ég vissi líka, því miður bara af reynslunni, að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki bregðast rétt við.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem hún setti á Facebook í gær.
Ríkisstjórnin sem Björt sat í sprakk í september þegar flokkur hennar, Björt framtíð, ákvað að slíta stjórnarsamstarfinu eftir átta mánuði. Það gerðist í kjölfar uppreist æru-málsins og opinberunar á því að faðir Bjarna Benediktssonar, sem leiddi stjórnina, hefði skrifað meðmæli fyrir dæmdan barnaníðing sem sóttist eftir, og fékk, uppreist æru. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra greindi Bjarna frá því að faðir hans hefði gert slíkt mörgum mánuðum áður en að fjölmiðlar, almenningur, þingnefndir og samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórninni fengu slíkar upplýsingar. Björt framtíð féll svo af þingi í þingkosningunum sem haldnar voru í lok október.
„Það verða hneykslismál“
Í stöðuuppfærslunni segist Björk tengja við það sem Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur sagt um stöðuna í stjórnmálum eins og hún sé í dag. „Djöfulli sem það skiptir mann máli, og maður verður sáttur við sjálfan sig sem pólitíkus að taka ábyrgð á því að hafa verið kosin og koma þeirri stefnu til leiðar sem maður lofaði. Hvers vegna erum við hérna annars? Hugsaði ég fyrir nákvæmleg ári síðan þegar við Óttarr ræddum við Sjálfstæðisflokkinn um ríkisstjórnarmyndun. Þá var flokkurinn að sjálfsögðu eins og alltaf með fjölmargt í farteskinu. En ekki uppreist æru. Það er mér enn til furðu að einhverjum geti fundist það léttvægt mál.“
Hún segir að stjórnarmyndunarviðræðurnar sem leiddu til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafi verið mynduð hafi gengið vel þar sem flokkur Bjartrar sé í mörgum atriðum sammála Sjálfstæðisflokknum, í það minnsta á pappír.
„En svo er það það sem að ekki er skrifað í neinar stefnur en allir auðvitað vita. Það mun eitthvað koma uppá. Það lætur einhver eins og andskotinn. Það verða hneykslismál.
Í þessu sambandi verð ég að viðurkenna hér með illa meðferð á mínum yfirburða aðstoðarmönnum í Umhverfisráðuneytinu. Ég var harður húsbóndi því ég vildi klára mín verk á tveimur árum en ekki fjórum. Ég var í kapphlaupi við tímann því ég vissi að eitthvað mannlegt myndi koma uppá og ég vissi líka, því miður bara af reynslunni, að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki bregðast rétt við. Og það var það sem gerðist.“
Bað Sjálfstæðisflokkinn að bregðast við
Björt segir að það hafi ekki bara verið ákveðið sí svona að slíta ríkisstjórnarsamstarfi á kvöldfundi heima hjá Óttarri Proppé. Það hafi átt sér aðdraganda. Þau tvö hefðu til að mynda séð það fyrir að samstarfinu yrði slitiði þegar fréttir í fjölmiðlum bárust af stöðu Bjarna Benediktssonar. „Ég hringdi og bað fólk hjá samstarfsflokknum um að bregðast við. En það var búið að ákveða að gera það ekki og þar við sat. Sjálfstæðisflokkurinn vissi það fyrir umrætt afdrifaríkt rafrænt kosningakvöld hvað myndi gerast. Skeytingaleysi og leyndarhyggja gagnvart ömurlegri stjórnsýslu vegna kynferðisglæpa myndi aldrei líðast hjá Bjartri Framtíð. Svo einfalt var það í huga okkar- en svo flókið fyrir mörgum öðrum.“
Björt segist því vita hvað ferðalag með Sjálfstæðisflokknum kosti. Í tilfelli hennar flokks hafi það kostað hann tilveru sína á Alþingi. „Núna er trúverðugleikinn gefinn eftir fyrirfram. Ég er ekki pólitiskt með Vinstri Grænum fyrir fimmaur. Kaupi ekki græna talið því verkin hjá þeim vitna um annað, trúi ekki körlunum þegar þeir tala um feminisma en gefa ekki þumlung eftir vegna sjálfs síns og 34 ára á Alþingi.
En það er þarna taug til Katrínar og annarra kvenna í VG sem ég hef unnið með á þingi.
Ég mun auðvitað taka rimmuna við þær og þessa væntu ríkisstjórn og það verður fínt fyrir mig og Bjarta Framtíð.
En ég óska þeim samt ekki að gera sömu mistök og við.“
Ég tengi við Katrínu Jakobsdóttur og stöðuna sem hún er í dag. Djöfulli sem það skiptir mann máli, og maður verður sá...
Posted by Björt Ólafsdóttir on Thursday, November 23, 2017