Íslenska sprotafyrirtækið Authenteq sem hefur unnið í þróun á rafrænum skilríkjum sem hægt er að nota hvar sem er á internetinu hefur fengið fjárfestingu frá stórum erlendum fjárfestum.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
Á meðal fjárfestana sem koma að félaginu eru Tim Draper sem á fjárfestingafélagið Draper Associates, en hann hefur fjárfest í mörgum af þekktustu tæknifyrirtækjum heims og var meðal fyrstu fjárfesta í Tesla, Skype, Box, Hotmail og Twitch, ásamt kínverska tæknirisanum Baidu.
Initial Capital sjóðurinn í London fjárfesti einnig i fyrrtækinu, en eigendur þess stofnuðu Playfish tölvuleikjafyrirtækið. Þeir hafa verið umsvifamiklir á tölvuleikjamarkaði og meðal annars frumfjárfestar í Supercell frá Finlandi.
Einnig tóku þátt í fjármögnunni þýski fjárfestirinn Cavalry Ventures sem er í eigu stofnanda m.a. Delivery Hero og eru staðsettir í Berlín.
Samtals nam hlutafjáraukningin 135 milljónum króna, en stofnendur Authenteq eru Kári Þór Rúnarsson, Rúnar Karlsson og Adam H. Martin. „Við erum ótrúlega sáttir við að ná þremur fjárfestum, frá þremur stærstu borgum tæknisprota í heiminum og hafa hundruð fyrirtækja í sínu fjárfestingasafni sem við höfum aðgang að. Við lögðum einnig mikla áherslu á að fá fjárfesta sem sjálfir hafa reynslu af því að stofna og reka sprotafyrirtæki og því að stækka hratt á alþjóðlegum markaði,“ segir Kári Þór Rúnarsson framkvæmdastjóri og stofnandi Authenteq.
Fyrirtækið hefur hlotið styrki frá Tækniþróunarsjóði og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, auk þess að taka þátt í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavik og var fyrirtækið svo valið inn í Startupbootcamp í framhaldinu.
Fjármagnið verður nýtt til að stækka teymið og undirbúa útgáfu á lausninni fyrir alþjóðlegan markað en fjölmörg fyrirtæki hafa sýnt lausninni áhuga. „Við höfum verið svo heppin að hingað til höfum við ekki þurft að sækja út á við til að selja þar sem fyrirtæki hafa haft samband við okkur af fyrra bragði ólm í að nýta sér lausnina. Við munum þó nýta fjármagnið í að bæta við markaðs- og sölufólki enda er núna lögð áhersla á að stækka og gera Authenteq að auðkenningarstaðli fyrir internet viðskipti og samskipti, segir Kári í fréttatilkynningunni.