Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, segir það þjóðarskömm að fólk þurfi að hafast við á tjaldsvæðinu í Laugardal gegn sínum vilja vegna húsnæðisvanda.
Þetta kemur fram í færslu hans á Facebook í morgun.
„Sú staða að talsverður fjöldi fólks væri í miklum húsnæðisvanda hefur verið ljós frá í sumar og borgin hefur því á undanförnum vikum keypt fjölda íbúða og er jafnframt að útbúa nokkurs konar neyðarhúsnæði í Víðinesi fyrir þá Reykvíkinga sem hafa ekki í önnur hús að venda,“ segir í færslunni.
Dagur segir jafnframt að 144 íbúðir og úrræði sé búið að kaupa og verið sé að standsetja. „Könnun vettvangsteymis Velferðarsviðs sem fór til fundar við íbúa tjaldsvæðisins í Laugardalnum leiddi hins vegar í ljós að umtalsverður hluti þess hóps sem hefst þar við er úr nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og af landsbyggðinni vegna þess að þar hefur ekki verið húsnæði að fá - og tjaldsvæðum jafnvel lokað yfir vetrartímann. Þetta ætti kannski ekki að koma á óvart því flestir viðmælendur fjölmiðla í Laugardalnum undanfarna daga eru úr öðrum sveitarfélögum.“
Kjarninn fjallaði um húsnæðismál í síðustu viku en þar kom fram að um síðustu áramót átti Reykjavíkurborg 2.445 félagslegar íbúðir. Ljóst er að þeim hefur fjölgað um á annað hundrað í ár. Til samanburðar áttu þau nágrannasveitafélög höfuðborgarinnar sem koma þar næst, Kópavogur (436 félagslegar íbúðir) og Hafnarfjörður (245 félagslegar íbúðir) samtals 681 félagslega íbúð í lok síðasta árs. Í Garðabæ eru 35 slíkar, 30 í Mosfellsbæ og 16 á Seltjarnarnesi. Því hefur Reykjavíkurborg, ásamt Félagsbústöðum, keypti næstum tvöfalt fleiri íbúðir á allra síðustu vikum sem munu nýtast þeim sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda en Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes áttu samtals í heild um síðustu áramót.
Borginni ber siðferðisleg skylda til að hugsa um fólkið
Dagur telur að borginni beri siðferðileg skylda til að líta líka til þessa fólks varðandi neyðarlausnir á þeirra vanda, samhliða því að trygga Reykvíkingum öruggt húsaskjól. „En frumskyldan hlýtur að liggja heima fyrir og mér finnst reyndar fullkomlega eðlilegt að velferðarsvið borgarinnar sendi viðkomandi sveitarfélögum reikninginn,“ segir hann í færslunni.
Hann segir að Reykjavík leggi allt kapp á að glíma við húsnæðisvandann og auka framboð félagslegs húsnæðis og húsnæðis á viðráðanlegu verði. En það sé jafnljóst að önnur sveitarfélög verða að standa sig betur. „Ég hef haft orð á því áður - en það er ótrúlega lítið talað um þá staðreynd - að þrátt fyrir mikla umræðu um húsnæðismál og húsnæðisvanda fólks er það fyrst og fremst í Reykjavík sem unnið er að því að fjölga félagslegum íbúðum, leiguíbúðum fyrir fólk með lítil efni, stúdentaíbúðum og íbúðum fyrir aldraða. Fyrir er Reykjavík með lang hæst hlutfall slíkra íbúða. Fjölmörg sveitarfélög eru með allt of fáar íbúðir á sínum vegum og engar áætlanir um að fjölga þeim.“
það er þjóðarskömm að fólk þurfi að hafast við á tjaldsvæðinu í Laugardal - gegn vilja sínum - vegna húsnæðisvanda. Sú...
Posted by Dagur B. Eggertsson on Wednesday, November 29, 2017
Biðlar til nýrrar ríkisstjórnar að setja lög um skyldur sveitarfélaga
Hann spyr hvort ný ríkisstjórn þurfi hugsanlega að leiða skyldu sveitarfélaga til að fjölga þessum íbúðum í lög, þannig að munurinn á milli Reykjavíkur og annarra haldi ekki bara áfram að aukast. „Ég vona alla vega að rækilega sé fjallað um húsnæðismál í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar því þau eru og verða eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna,“ segir hann.