Flokksráð Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins, og miðstjórn Framsóknarflokksins, hafa samþykkt málefnasamning flokkanna og verður stjórnarsáttmáli undirritaður á morgun klukkan 10:00 í Listasafni Íslands.
Á fundum flokkanna allra var málefnasamningurinn samþykktur með afgerandi stuðningi. Tveir þingmenn Vinstri grænna, Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, styðja ekki stjórnarsáttmálann, en um 81 prósent flokksráðsmanna Vinstri grænna greiddi atkvæði með sáttmálanum.
Af 63 þingmönnum á Alþingi þá hafa stjórnarflokkarnir þrír 35 þingmenn, en ef Andrés Ingi og Rósa Björk ákveða að styðja ekki meirihlutann þá fækkar í stjórnarliðinu niður í 33.
Því er ljóst að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, tekur við stjórnartaumunum eftir rúmlega mánaðarlangar stjórnarmyndunarviðræður.
Stjórnarsáttmálinn verður formlega kynntur á morgun, og einnig skipting ráðuneyta milli flokkanna, þó fyrir liggi að Katrín verði forsætisráðherra.