Katrín Jakobsdóttir staðfesti það á kynningarfundi á stjórnarsáttmála verðandi ríkisstjórnar að auk forsætisráðuneytisins, sem hún mun setjast í, fái flokkur hennar heilbrigðisráðuneytið og umhverfisráðuneytið í sinn hlut. Framsóknarflokkurinn mun fá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið. Sjálfstæðisflokkurinn fær þá fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið, innanríkis- og utanríkisráðuneytið, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
Ljóst er að Katrín verður forsætisráðherra og búist er við því að Svandís Svavarsdóttir verði heilbrigðisráðherra. Þá fær flokkur hennar embætti forseta Alþingis. Steingrímur J. Sigfússon verður samkvæmt heimildum Kjarnans forseti Alþingis en misvísandi skilaboð berast um hver muni setjast í stól umhverfisráðherra. Þar koma til greina Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið mun setjast Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Lilja Alfreðsdóttir mun líklegast verða menntamálaráðherra og til viðbótar fær Framsóknarflokkurinn félagsmálaráðuneytið. Þar er talið líklegast að Þórunn Egilsdóttir muni setjast.
Líklegt er talið að Kristján Þór Júlíusson verði færður um set, væntanlega í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, og Bjarni Benediktsson verður fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Guðlaugur Þór Þórðarson verður þá áfram utanríkisráðherra, Sigríður Andersen áfram ráðherra innanríkismála og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir áfram ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. Jón Gunnarsson þykir líklegastur til að detta út úr ríkisstjórninni.
Það mun þó liggja fyrir eftir að þingflokksfundum flokkanna þriggja lýkur, en þeir fara fram síðar í dag.
Katrín sagði í framsögu sinni á fundinum í dag að ríkisstjórnin myndi ráðast í uppbyggingu samfélagslegra innviða. Hún nefndi sérstaklega heilbrigðiskerfið, menntakerfið og samgöngumál. Þá verði það stórt verkefni að skapa sátt á vinnumarkaði. Forgangsmál ríkisstjórnarinnar verði að kalla alla aðila vinnumarkaðarins að borðinu til þess.
Bjarni Benediktsson tók undir með Katrínu og sagði að það hefði hjálpað til við að slípa flokkanna saman að taka sér tíma og fara yfir einstaka málaflokka. Niðurstaðan endurspegli að hér sé þjóð í sóknarhug. Þeir sem standi að þessum sáttmála hafi mikla trú á því að hér sé hægt að gera vel á næstu árum, bæði hvað varðar félagslegt öryggi en ekki síður efnahagslega velsæld í landinu. Þá sagði Bjarni að heildartekjur ríkisins á næsta ári verði umtalsvert meiri en reiknað var með og að þær tekjur veðri notaðar til að ráðast í þau brýnu verkefni sem liggja fyrir.
Töluverð tímamót séu í sáttmálanum hvernig sé talað til Alþingis. „Þegar öllu er á boltinn hvolft þá er þetta undir okkur sjálfum komið.“ Ytri aðstæðurnar eru það góðar.
Sigurður Ingi sagði að nú væri mikið tækifæri til innviðauppbyggingar og til að takast á við ýmsar áskorunar til framtíðar.
Ítarleg umfjöllun um stjórnarsáttmálann mun birtast hér á Kjarnanum síðar í dag.