Vodafone tekur í dag við rekstri útvarps- og sjónvarpssviðs 365 ásamt frétta- og afþreyingavefnum Vísi.is og fjarskiptasviði 365. Vodafone greiðir um 8,3 milljarða króna fyrir þessar einingar 365 miðla en samtals er um 10 milljarða viðskipti að ræða.
Í tilkynningu frá Vodafone segir í Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, að hann hlakki til þess að leiða fyrirtækið inn í nýja tíma, en Björg Víglundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sviðsins innan Vodafone sem hefur miðlana undir sinni könnu. „Á meðan á löngu kaupferli hefur staðið hef ég gert mér enn betur grein fyrir mikilvægi þessarar starfsemi fyrir íslenskt samfélag og þeim frábæra hópi starfsfólks sem á hverjum einasta degi færir landsmönnum menningu, fréttir og afþreyingu í heimsklassa í sjónvarpi, útvarpi á netinu eða í snjalltækjum. Við hlökkum til að geta nú farið að vinna með afbragðs starfsfólki í nýjum einingum að framtíðarþróun félagsins. Þrátt fyrir aukið erlent framboð tel ég að um alla framtíð verði þörf og eftirspurn eftir öflugum innlendum miðlum sem gera efni sem tengist samfélagi okkar og menningu. Markmiðið er skýrt að reka öfluga íslenska fjölmiðlun, byggja upp einstakan vinnustað og vöru og þjónustu í bestu fáanlegu gæðum fyrir landsmenn alla,“ segir Stefán.
Samhliða sölu greiðir 365 upp 97 prósent af langtímalánum félagsins og eignast um leið 11 prósent hlut í Vodafone, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Sé mið tekið af markaðsvirði Vodafone við lokun markaða í gær þá er virði 11 prósent hlutar um 1,9 milljarðar króna.
„Ég er ánægð með að þessu ferli er lokið,“ segir Ingibjörg Pálmadóttir, forstjóri 365, í Fréttablaðinu í dag. „Þegar ég tók við sem forstjóri í vetur var sett aukin áhersla á sölumál. Það hefur skilað góðum árangri og hefur afkoma seldra eininga aukist um 40 prósent á árinu. Starfsmenn 365 hafa staðið sig frábærlega í því að ná þessum árangri. Við sjáum tækifæri í því að hafa Fréttablaðið í sérfélagi. Það gefur meiri sveigjanleika til að eflast og þróast. Fréttablaðið mun kynna spennandi nýjungar á næstunni,“ segir Ingibjörg.