Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur samið við Ibercaja bankann um að innleiða netbankalausnir fyrirtækisins. Ibercaja er einn af stærstu bönkum Spánar. Yfir ein milljón hefur nú aðgang að húgbúnaði Meniga í gegnum Ibercaja bankann. Hann hefur nú verið innleiddur hjá yfir 70 fjármálastofnunum víða um heim sem gerir það að verkum að um 50 milljón manns í 20 löndum er með aðgang að honum. Á meðal viðskiptavina Meniga eru margir stærstu banka heims, þeirra á meðal Santander, Commerzbank, ING Direct og Intesa Sanpaolo. Íslendingar geta hins vegar nýtt sér lausnir Meniga gjaldfrjálst á vefnum meniga.is eða í Meniga appinu.
[links]Í tilkynningu frá Meniga segir að fyrsta skrefið í innleiðinguna hjá Ibercaja muni leiða af sér nýja og endurbætta snjallsímalausn. „Síðar mun bankinn taka í notkun fleiri vörur Meniga þar sem viðskiptavinir koma til með að geta sett upp sjálfvirkt bókhald, borið sig saman við aðra áþekka einstaklingshópa, sett sér markmið í ákveðnum útgjaldaflokkum og þar með einfaldað og haldið betur um heimilisfjármálin sín.“
[adspot]Georg Lúðvíksson, forstjóri og einn stofnenda Meniga, segir að samskipti fyrirtækja við viðskiptavini fari í auknum mæli fram eftir stafrænum boðleiðum sem opnar á ný og spennandi tækifæri. „Bankar eru þar engin undantekning. Með því að innleiða hugbúnað Meniga getur Ibercaja nú átt samskipti við viðskiptavini sína á mun persónulegri hátt. Á sama tíma geta þeir boðið viðskiptavinum sínum upp á betri þjónustu, yfirsýn og innsýn í fjármálin sín og þar með gert viðskiptasambandið mun traustara.“
Meniga var stofnað árið 2009 og eru starfsmenn í dag um 100. Fyrirtækið þróar heimilisfjármálalausnir fyrir banka og fjármálastofnanir sem notaðar eru í næstu kynslóð netbanka til að stórbæta þjónustu við viðskiptavini.