Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, segir að álag á eldsneyti verði endurskoðað. Sú breyting muni koma fram í nýju fjárlagafrumvarpi sem verður tilbúið til framlagningar á miðvikudag í næstu viku. Hann segir að ákveðið mark verði sett á tekju- og gjaldahlið frumvarpsins. Þetta kemur fram íMorgunblaðinu.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greinir svo frá því í Fréttablaðinu að hún sé opin fyrir því að taka upp svokallaðan sykurskatt að nýju. Í frétt blaðsins er greint frá því að sprenging hafi orðið í dauðsföllum af völdum sykursýki 2 undanfarin ár. Á tuttugu ára tímabili létust 137 einstaklingar hér á landi af völdum sykursýki af tegund 2.
Sykurskattur hefur áður verið í lögum á Íslandi. Álagning sykurskattsins tók þá gildi 1. mars 2013 og var kynntur sem skref í áttina að því að viðurkenna þann heilsufarsskaða sem hlýst af slæmu mataraæði, en mataræði er stærsti einstaki áhættuþáttur heilsufarsskaða Íslendinga samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Sykurskatturinn var hins vegar afnuminn með lögum sem samþykkt voru árið 2014.
Við það tilefni sagði Bjarni Benediktsson, sem þá var fjármála- og efnahagsráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að sykurskatturinn gæfi þrjá milljarða í ríkiskassann en næði ekki þeim lýðheilsulegu markmiðum sem að hefði verið stefnt. Þess vegna væri hann afnuminn.