Menntamálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hyggst kanna kosti þess að nýta námslánakerfið til að styðja byggðir landsins og þannig hvetja fólk til að setjast að á svæðum sem annars hafa átt í vök að verjast.
Þetta kemur fram í viðtali við Lilju Dögg í Fréttablaðinu í dag. „Þetta gengur út á að fólk sem býr og vinnur á svokölluðum aðgerðasvæðum og er með námslán gæti sótt um afslátt af námslánum,“ segir Lilja Dögg.
Lilja vísar til reynslu Norðmanna af þessari leið þar sem fólk getur fengið tíu prósenta lækkun á námslánum árlega hafi það búið á tilgreindum svæðum í tólf mánuði. „Þar hefur þessu úrræði verið beint inn á svæði þar sem skortur hefur verið á sérfræðimenntuðu fólki,“ segir Lilja. Úrræðið hafi skilað töluverðum árangri í Norður-Noregi og laðað til dæmis lækna og tæknimenntað fólk á strjálbýl svæði. „Í mörgum tilvikum hefur þetta fólk ílengst á svæðinu eftir að námslán þess eru greidd að fullu,“ segir Lilja Dögg í viðtali við Fréttablaðið.
Í stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er fjallað um þessar hugmyndir. Í honum segir meðal annars: „Sóknaráætlanir landshlutanna eru mikilvægt tæki til að reka byggðastefnu á forsendum heimamanna. Þær verða styrktar á kjörtímabilinu. Horft verður til byggðaaðgerða sem tíðkast í nágrannalöndunum en um leið verður svæðisbundin þekking nýtt sem best. Skoðaðir verða kostir þess að nýta námslánakerfið og önnur kerfi sem hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðum byggðum. Ráðuneytum og stofnunum verður falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er.“
Aðspurð um þau svæði sem myndu njóta þessa úrræðis segir Lilja að það gæti verið breytilegt en um yrði að ræða svæði þar sem erfitt reynist að halda uppi tiltekinni þjónustu vegna skorts á sérfræðimenntuðu fólki.
Eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum kemur til greina að fleiri hvatar til landsbyggðarbúsetu verði kynntir. „Liður í þeirri endurskoðun þarf að vera hvernig hvata við getum sett til að efla þekkingarsamfélagið úti á landi. En auðvitað snýst þetta fyrst og síðast um innviðauppbyggingu um landið og þá þjónustu sem er í boði,“ segir Lilja Alfreðsdóttir