S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar í borgarstjórn Reykjavíkur, ætlar ekki að gefa kost á sér í komandi borgarstjórnarkosningunum vorið 2018. Hann tilkynnti þetta á borgarstjórnarfundi síðdegis í dag.
Á vef RÚV er haft eftir Birni að sú fjárhagsáætlun sem nú er til umræðu sé sú síðasta sem hann muni koma að í bili vegna þess að hann ætli ekki að bjóða sig fram á næsta kjörtímabili. „„Ég er ekki að lofa því að ég sé farinn að eilífu. Af því að kannski kem ég aftur einhvern tímann ef þið sem eftir sitjið ætlið að fara að klúðra einhverja þá verð ég bara að segja eins og Arnold Schwarzenegger: I‘ll be back.“
Miklar breytingar verða í borgarpólitíkinni á komandi vori. Áður höfðu bæði Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, og Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata, tilkynnt að þeir ætli sér ekki fram í næstu kosningum og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, sem var oddviti Framsóknar og flugvallarvina, sagt sig úr Framsóknarflokknum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur hins vegar greint frá því að hann ætli að bjóða sig aftur fram í vor. Hann verður því eini oddviti flokkanna sex sem náðu inn í borgarstjórn árið 2014 sem verður þar í framboði.