„Hér hefur auðvitað ekki verið mikil hefð fyrir því til að mynda að ráðherrar segi af sér eða eitthvað slíkt. Það hefur ekki verið hluti af menningunni. Ég held að það sé mjög erfitt að breyta því yfir nótt. Svo maður segi það alveg hreint út.“
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, í sjónvarpsþætti Kjarnans sem er á dagskrá Hringbrautar klukkan 21 í kvöld. Katrín er þar í ítarlegu viðtali þar sem hún ræðir meðal annars ríkisfjármál, skatta, skattaeftirlit, pólitíska ábyrgð, spillingu, misskiptingu og framtíð bankakerfisins.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum í spilaranum hér að ofan.
Í aðdraganda síðustu tveggja kosninga hafa ýmsir framámenn í Vinstri grænum talað mikið um spillingu, siðferði, pólitíska ábyrgð, afnám leyndarhyggju og nauðsyn þess að útrýma eigi frændhygli. Ástæðan var fjölmörg spillingar- og hneykslismál sem upp hafa komið tengd íslenskum stjórnmálum á undanförnum árum. Lítið er hins vegar um þessi atriði í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð var í síðustu viku.
Katrín segir í þætti kvöldsins að pólitísk ábyrgð sé menningarbundin og að þeirri menningu verði ekki snúið við einn tveir og þrír með reglusetningu eða öðru slíku. „ Mikilvægasta hlutverk mitt að minnsta kosti. sem tengist því sem við erum að ræða hér um siðareglur og hagsmunaskráningu og hvernig við tölum um mál þegar þau koma upp, það er að stuðla að því að við tölum um þessi mál með öðruvísi hætti en hefur verið.“
Hún segir að margir hafi gagnrýnt sig fyrir að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum sem hefur verið gagnrýndur fyrir aðkomu að mörgum slíkum málum. Það hafi hins vegar þurft að horfa á þá stöðu sem væri uppi. „Við erum með niðurstöðu kosninga. Og hver er þá pólitísk ábyrgð í því að reyna að hafa áhrif til góðs á samfélagið út frá þeirri niðurstöðu sem er á borðinu? Út frá þeim tækifærum sem þá skapast, eins og þau líta út.“