Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, viðurkenndi í dag Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Þetta gerði hann í beinni útsendingu í ávarpi, en það var meðal annars sent út á Facebook síðu Hvíta hússins.
Ákvörðunin felur í sér breytingu á þeirri utanríkisstefnu sem Bandaríkin hafa fylgt undanfarna áratugi allt frá stofnun Ísraelsríkis.
Trump sagði í ávarpi sínu að hann teldi rétt að viðurkenn Jerúsalem sem höfuðborgina, og vitnaði meðal annars til þess að fyrri forsetar Bandaríkjanna hefðu talað fyrir þessu en síðan ákveðið að falla frá því eftir að þeir komust til valda.
Andstaðan er sérstaklega mikil hjá múslimaríkjum og hafa leiðtogar Palestínu lýst þessum sem „kossi dauðans“ sem geti leitt til átaka og komið í veg fyrir möguleika á friði.
Erdogan Tyrklandsforseti hefur mótmælt ákvörðuninni harðlega og sagt hana ólíðandi og óásættanlega.
"Mr Trump, Jerusalem is a red line for Muslims," warns Turkish President Erdogan pic.twitter.com/875vGYI4HX
— Middle East Eye (@MiddleEastEye) December 5, 2017
Samhliða ákvörðun sinni þá ákvað Trump að setja strax af stað vinnu við að færa bandaríska sendiráðið í Ísrael frá borginni Tel Aviv til Jerúsalem.
Leiðtogar margra ríkja í Evrópu hafa varað við þessu skrefi hjá Trump og hringdi Emmanuel Macron, Frakklandsforseta, sérstaklega í Trump til að reyna að fá hann ofan af ákvörðuninni. Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, hefur einnig varað við þessu, og talað fyrir því að friðarumleitanir geti farið út um þúfur með yfirlýsingu sem þessari þar sem Palestína og Ísrael gera tilkall til borgarinnar.
Jerúsalem er helg borg kristinna, gyðinga og múslima og hefur nær alla tíð verið bitbein þessara trúarhópa. Vesturbakkinn umlykur borgina, meirihluti íbúa eru gyðingar en þar búa rúmlega þrjú hundruð þúsund Palestínumenn. Ísraelar hernámu austurhluta Jerúsalem, þar sem Palestínumenn búa, í sex daga stríðinu 1967.