Lyfjaflakk örvandi lyfja á meðal 10. bekkinga á Íslandi er algengt miðað við erlendar rannsóknir. Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar höfðu tæplega 18 prósent þeirra unglinga í 10. bekk sem hafa fengið ávísað örvandi lyfjum ástundað lyfjaflakk á örvandi lyfjunum sínum. Hlutfallið erlendis er nær 5 til 10 prósentum.
Þetta kemur fram í rannsókn sem Læknablaðið birti í vikunni.
Kemur fram í Læknablaðinu að af 2306 nemendum sem tóku þátt í könnunni sögðust 91 prósent aldrei hafa fengið slík lyf uppáskrifuð en 9 prósent sögðu svo vera. Strákar voru rúmlega helmingi líklegri til að hafa fengið örvandi lyf uppáskrifuð en stúlkur. Þeir unglingar sem kváðust hafa dreift lyfjunum sínum til annarra með einhverjum hætti eru einnig margfalt líklegri til að sýna af sér annars konar áhættuhegðun, samkvæmt rannsókninni.
Verður að vanda til verka
Segir í rannsókninni að athyglisbrestur og ofvirkni (ADHD) sé taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt fram fyrir 7 ára aldur. Örvandi lyf séu mikið notuð til meðhöndlunar á þessum kvilla hér á landi en feli í sér hættu á ávanabindingu, misnotkun og lyfjaflakki, það er að þau séu notuð af öðrum einstaklingi en þeim sem læknir skrifaði lyfseðil fyrir. Þessari rannsókn hafi verið ætlað að svara því hversu algengt slíkt lyfjaflakk væri meðal unglinga á Íslandi.
Samkvæmt rannsóknaraðilum sýna niðurstöðurnar fram á mikilvægi þess að vandað sé til verka hvað varðar aðbúnað og umgjörð slíkar notkunar því til mikils sé að vinna, bæði fyrir barnið sjálft og þá sem komast á ólöglegan hátt yfir lyfin og neyta þeirra.
Í niðurstöðunum á nemendum 10. bekkjar á Íslandi sögðust um 9 prósent þeirra fá örvandi lyf gegn lyfseðli. Segir í rannsókninni að þetta passi vel við innlendar tölur um sölu örvandi lyfja en sé eilítið hærra en það sem faraldsfræðilegar rannsóknir gefa til kynna að sé tíðni ADHD í 15 ára gömlum börnum.
Jafnvel þó miðað væri við hæstu hugsanlegu tíðni ADHD í börnum sem fram hefur komið í faraldsfræðilegum rannsóknum, megi líta svo á að verið sé að meðhöndla nær öll 15 ára börn sem hafa þessa röskun með örvandi lyfjum hér á landi. Það gefi annaðhvort til kynna afskaplega skilvirkt greiningar- og meðferðarkerfi ADHD í börnum á Íslandi eða mögulega ofgreiningu og ofmeðhöndlun, eftir því hvernig á það er litið.
Lyfjaflakk tengist áhættuhegðun
Um það bil 13 prósent drengja í 10. bekk var ávísað örvandi lyfjum og rúmlega 5 prósent stúlkna en segir jafnframt í rannsókninni þessi kynjamunur sé í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna á tíðni ADHD á þessu aldursbili, þó vissulega megi finna bæði hærri og lægri tölur eftir því hvaða aðferðafræði sé beitt hverju sinni.
Nokkur munur fannst á ávísunum og lyfjaflakki örvandi lyfja eftir kynjum en hlutfall lyfjaflakks er eilítið hærra hjá stúlkum en hjá drengjum. Rannsakendur benda þó á að athuga beri að miklu færri stúlkur fá örvandi lyf gegn lyfseðli en drengir, þannig að prósentutala stúlkna sé fljótari að breytast en hjá drengjunum.
Augljóst þykir að lyfjaflakk tengist annarri áhættuhegðun eins og reykingum, áfengisneyslu og annarri vímuefnanotkun, því jafnvel þó þeir unglingar sem fá uppáskrifuð örvandi lyf virðist líklegri til að nota vímuefni, séu þeir einstaklingar sem dreifa sínum lyfjum í margfalt meiri áhættu. Niðurstöðurnar sýna einnig að lítil tilfinningaleg tengsl við foreldra hafi sterk tengsl við það að unglingar dreifi örvandi lyfjum.
Foreldrar og kennarar verða að vera vakandi
Þetta gefur tilefni til áframhaldandi áherslu á að styrkja tengsl foreldra og barna í æskulýðs- og forvarnarstarfi, sérlega hjá þeim börnum sem glíma við ADHD, segir í rannsókninni. Einnig að foreldrar, forráðamenn, kennarar og aðrir sem hafa umsjón með börnum á slíkum lyfjum séu vakandi fyrir þeim möguleika að barni sé ekki treystandi til að bera sjálft ábyrgð á lyfjunum vegna freistingar um skjótfenginn gróða, félagslegs þrýstings eða jafnvel þjófnaðar og hótana frá utanaðkomandi aðilum.
Spurningalistarannsókn sem þessi felur í sér nokkrar augljósar takmarkanir eins og kemur fram í Læknablaðinu. Í fyrsta lagi sé hætta á því að nemendur svari ekki sannleikanum samkvæmt. Í einhverjum tilfellum tengist slík svörun því hvað er talið æskilegt innan ákveðins samfélags og geti bæði leitt til þess að svarað er á ýkjukenndan hátt en einnig að dregið sé úr.
Sú staðreynd að hér er spurt um ólögmætt athæfi feli einnig í sér þá hættu að skekkja komi í svörin. Rannsóknir á réttmæti ESPAD-spurningalistans, sem meðal annars hafa verið gerðar með þátttöku íslenskra unglinga, bendi hins vegar til að líkurnar á svarskekkju hér séu óverulegar og að langflestir svari eins heiðarlega og þeim er unnt. Önnur takmörkun snúi að fjölda þátttakenda þar sem tiltölulega fámennur hópur dreifir lyfjunum sínum til annarra og því varasamt að draga allt of afgerandi ályktanir af niðurstöðunum.
Mikilvægt að vanda til verka
Að endingu segir í rannsókninni að niðurstöður þessarar könnunar skyldi ekki nota til að gera lítið úr þeirri hjálp sem örvandi lyf geta veitt börnum sem glíma við ADHD á þessum aldri. Á sama tíma sýni niðurstöðurnar fram á mikilvægi þess að vandað sé til verka hvað varðar aðbúnað og umgjörð slíkar notkunar, til dæmis aðgengi barna að lyfjunum, sjálfstæði þeirra til að skammta sér sjálf lyfin og notkun reglulegra þvagprufa til að sannreyna að barn sé að taka lyfið ef grunur leikur á lyfjaflakki. Ljóst sé að til mikils er að vinna, bæði fyrir barnið sjálft og þá sem á ólöglegan hátt komast yfir og neyta lyfjanna sem um ræðir.