Ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels, hefur dregið dilk á eftir sér og verður haldinn neyðarfundur í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á morgun þar sem ákvörðunin verður rædd.
Einn þeirra sem hefur harðlega mótmælt ákvörðuninni og sagt hana bæði óábyrga og hættulega, er Salman konungur Sádí-Arabíu. Hann varaði Trump við ákvörðuninni og sagði að hún myndi hleypa illu blóði í múslima um allan heim og skapa ófrið fyrir botni Miðjarðarhafs.
Washington Post greinir frá því að Trump hafi ákveðið þetta fyrir mörgum mánuðum og unnið að þessu lengi, í mörgum tilvikum þvert á ráðleggingar ráðgjafa.
Palestínumenn eru æfir vegna ákvörðunarinnar, sem augljóslega virðist vera frekar til þess fallin að hefta friðarviðræður frekar en að liðka fyrir þeim, eins og Trump sagði að væri yfirlýst stefna sín með ákvörðuninni. Hann sagði ákvörðunina „rökrétta“ og í takt við kosningaloforð hans.
I have determined that it is time to officially recognize Jerusalem as the capital of Israel. I am also directing the State Department to begin preparation to move the American Embassy from Tel Aviv to Jerusalem... pic.twitter.com/YwgWmT0O8m
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 6, 2017
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, sagði að ákvörðun höfuðborg Ísraels væri ábyrgðarlaus og bryti í bága við alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hafði áður varað við því að slík ákvörðun gæti haft alvarlegar afleiðingar, og sagði það eina rétta í stöðunni væri að afturkalla ákvörðunina tafarlaust.
Jerúsalem er helg borg kristinna, gyðinga og múslima og hefur nær alla tíð verið bitbein þessara trúarhópa. Vesturbakkinn umlykur borgina, meirihluti íbúa eru gyðingar en þar búa rúmlega þrjú hundruð þúsund Palestínumenn. Ísraelar hernámu austurhluta Jerúsalem, þar sem Palestínumenn búa, í sex daga stríðinu 1967.