Úttekt Samtaka atvinnulífsins á stjórnarsáttmálanum sýnir að gróflega megi áætla að árleg útgjöld ríkisins og ríkisfyrirtækja muni vaxa um 87,9 milljarða króna komist allt til framkvæmda sem lofað er í stjórnarsáttmálanum. Á sama tíma muni tekjur dragast saman um 15 milljarða króna.
Í frétt á vef samtakanna segir að þá aukningu verði að „ meta í því ljósi að útgjöld ríkissjóðs eru nú þegar með því sem hæsta sem gerist meðal ríkja OECD, eða 40% af landsframleiðslu. Það blasir því við að aldrei verður hægt að hrinda öllu því í framkvæmd sem lofað er í sáttmálanum.“
Fjárlagafrumvarp síðustu ríkisstjórnar, sem lagt var fram í september, gerði ráð fyrir að fjárlög næsta árs myndu skila ríkissjóði 44 milljarða króna afgangi sem gæti nýst til að greiða niður skuldir. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði nýverið að tekjur ríkissjóðs á næsta ári verði að öllum líkindum að minnsta kosti tíu milljörðum króna hærri en það frumvarp reiknaði með. Svigrúm ríkisstjórnarinnar til að setja viðbótarfé í ýmsa málaflokka ætti samkvæmt því að hafa aukist um sömu upphæð.
Katrín sagði einnig að ljóst væri að fjárlagafrumvarpið myndi ekki ná að endurspegla allar pólitísku línur ríkisstjórnarinnar. Þær línur myndu koma fram í fjármálaáætlun til fimm ára sem lögð verður fram í vor.
Gagnrýna skort á skuldaniðurgreiðslu
Samtök atvinnulífsins segja að stjórnarsáttmálinn geri ráð fyrir að ein lengsta uppsveifla Íslandssögunnar muni teygja sig áfram yfir kjörtímabilið án mikilla áfalla og skerðinga á tekjum ríkissjóðs. „Flokkarnir virðast samstíga um að auka útgjöld talsvert á tímabilinu. Ekki er hugað að hagræðingu í ríkisrekstri eða niðurgreiðslu skulda. Það er áhyggjuefni að ekki hafi verið dreginn meiri lærdómur af sögunni við gerð þessa sáttamála. Í ríkisfjármálum höfum við reglulega farið fram úr okkur í uppsveiflu og tekið það út með meiri samdrætti en annars þegar slaki myndast í hagkerfinu.“
Stjórnvöldum er síðan hrósað fyrir að ætla að lækka tekjuskatt og tryggingagjald sem innlegg í komandi kjaraviðræður en gagnrýnd fyrir að ætla ekki að sýna aðhald í rekstri ríkisins á næstu árum.
Sérstaklega er gagnrýnt hversu lítil áhersla sé lögð á niðurgreiðslu skulda, sem hvergi er minnst á í sáttmálanum. „Vaxtakostnaður ríkisins er nú þegar sá þriðji hæsti meðal iðnríkja. Ísland greiðir 4% af landsframleiðslu í vexti á meðan Grikkir greiða ekki nema 3,2% og Svíar greiða 0,4% í vaxtagreiðslur. Verði einskiptistekjur nýttar til niðurgreiðslu skulda þá gæti árlegur vaxtasparnaður ríkisins numið um 10 milljörðum. Huga verður að þessum staðreyndum í fjárlagafrumvarpinu.“