Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings tilkynnti í dag að það hefði hækkað lánshæfiseinkunn ríkissjóðs á langtímaskuldbindingum í innlendum og erlendum gjaldmiðli í „A“ úr „A-“.
Þá eru horfur fyrir einkunnina sagðar stöðugar (e. outlook stable). Helstu drifkraftar hækkunarinnar eru efnahagsstöðugleiki, batnandi ytri staða þjóðarbúsins og skuldalækkun hins opinbera ásamt öflugum hagvexti.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.
Í umfjöllun Fitch er sérstaklega vikið að því að opinberar skuldir hafi lækkað mikið á undanförnum árum, en spá Fitch gerir ráð fyrir að opinberar skuldir ríkissjóðs verði komnar í 45 prósent af árlegri landsframleiðslu en þær voru tæplega 95 prósent árið 2011.
Meðal viðmiðunin fyrir A einkunnina er undir 48,2 prósent.
Þá kemur fram í umfjöllun Fitch að styrking krónunnar hafi haldið aftur af verðbólgu, en hún hefur haldist undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í vel á fjórða ár, og mælist hún nú 1,7 prósent.
Fitch er bjartsýnt á næstu ári, og gerir ráð fyrir 3,3 prósent hagvexti á næsta ári og 2,9 prósent árið 2019.
Ferðaþjónusta hefur verið drifkrafturinn að baki miklu hagvaxtarskeiði á árunum 2013 til 2017, en að meðali var hagvöxturinn 4,4 prósent á ári á þessum tíma.