Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hafa náð samkomulagi um greiðslur sem Bretar þurfa að greiða vegna útgöngu úr Evrópusambandinu og einnig náð samkomulagi um fleiri atriði, eins og hvernig réttindi fólks frá Evrópusambandsríkjum í Bretlandi, og Breta í Evrópu, verða tryggð. Hópurinn telur um fjórar milljónir manna.
Frá þessu er greint á vef Financial Times, en kostnaður sem nefndur er einhvers konar útgöngugreiðsla er 40 til 60 milljarðar evra, eða sem nemur um 5 til 7.300 milljörðum króna. Mikil andstaða hefur verið meðal Brexit-sinna við því að verða við þessum kröfum ESB, en svo virðist sem Theresa May hafi fallist á að Bretar greiði þetta fyrir að komast úr sambandinu.
Líklegt má telja að þetta verði umdeilt í flokki hennar, Íhaldsflokknum.
— Martin Selmayr (@MartinSelmayr) December 8, 2017
Maraþonfundir hafa verið undanfarna daga milli samninganefnda Breta og Evrópusambandsins, en May hefur lagt kapp á að ljúka viðræðum um útgöngukostnaðinn, og fleiri atriði, sem fyrst, svo það sé hægt að byrja viðræður um hvernig viðskiptasambandi Evrópusambandsins og Bretlands verður háttað í framtíðinni. Þar eru stærstu hagsmunirnir sem þarf að ná samkomulagi um.
Eins og fram hefur komið hefur May þegar lagt það fram í lagatexta, að Bretar verði komnir úr Evrópusambandinu 29. mars 2019 klukkan 23:00.