Skeljungur hefur fest kaup á þriðjungshlut í Wedo ehf. sem á og rekur vefverslanirnar Heimkaup.is, Hópkaup.is og Bland.is.
Í tilkynningu, sem greint var frá á vef RÚV, kemur fram að hlutafjáraukningin nemi 280 milljónum króna og að fjármagnið verði notað til að styðja við frekari vöxt hjá félaginu.
Þá fær Skeljungur samhliða kaupunum rétt til að skrá sig fyrir 17 prósenta hlut til viðbótar á næstu þremur árum. Nýti Skeljungur rétt sinn til kaupanna þá tryggir hann sér 51 prósents eignarhlut í Wedo ehf.
Markaðsvirði Skeljungs er nú ríflega 14 milljarðar króna en hagnaður félagsins nam 1,2 milljörðum króna í fyrra, en félagið er skráð á aðallista kauphallar Íslands. Gildi lífeyrissjóður er stærsti hluthafi félagsins með 9,2 prósent hlut og Arion banki næst stærstur með 8,45 prósent hlut.
Í tilkynningunni er haft eftir Hendrik Egholm, forstjóra Skeljungs, að netverslun sé sú tegund viðskipta sem vex hvað hraðast í heiminum. „Við teljum tækifæri felast í samstarfi Skeljungs og Wedo, sem komi báðum aðilum til góða. Skeljungur er sífellt að leita leiða til að mæta þörfum viðskiptavina sinna og styrkja sölustaði félagsins.“
Guðmundur Magnason, forstjóri Wedo, segir að vöxtur félagsins hafi verið mikill að undanförnu. „Fjárfesting Skeljungs og aðkoma félagsins að Wedo kemur sér vel í þeirri uppbyggingu sem stendur fyrir dyrum og gerir okkur kleift að gera enn betur í samkeppni um hylli neytenda.“