Ekki liggur enn fyrir hver verður næsti ferðamálastjóri en fyrsti vinnudagur hans er eftir þrjár vikur. Staðan var auglýst í lok október og bárust 23 umsóknir en hæfnisnefndin mat þrjá umsækjendur best til þess fallna að gegna embætti ferðamálastjóra. Einn þeirra er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Halldór Halldórsson.
Þetta kemur fram í frétt Túrista.
Í síðustu viku átti ráðherra ferðamála, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur, fundi með þeim þremur sem koma til greina í starfið og í kjölfarið var búist við að skipað yrði í embættið, segir í fréttinni.
Þau þrjú sem hæfnisnefndin mat hæfust eru, samkvæmt heimildum Túrista, Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og Skarphéðinn Berg Steinarsson sem hefur meðal annars verið framkvæmdastjóri Íshesta, Ferðaskrifstofu Íslands og Iceland Express.