Lára Björg Björnsdóttir hefur verið ráðin upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Ákvörðun þess efnis var tekin á ríkisstjórnarfundi í dag.
Lára hefur starfað við almannatengsl og skipulagningu viðburða undanfarin ár. Hún sat í 15. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu Alþingiskosningum.
Lára Björg hefur starfað við blaðamennsku og fréttaskrif um árabil, meðal annars fyrir Fréttablaðið, Viðskiptablaðið og Nýtt Líf. Þá skrifaði hún lengi pistla á Kjarnann.
Lára Björg starfaði einnig sem sérfræðingur hjá Landsbankanum og í utanríkisráðuneytinu, þar á meðal hjá fastanefnd Íslands hjá NATO í Brussel. Hún skrifaði bókina Takk Útrásarvíkingar.
Lára Björg er með BA gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands.
Þarf ekki að auglýsa
Starf upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar var búið til árið 2012 í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún leiddi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Jóhann Hauksson, fjölmiðlamaður, var fyrstur til þess að gegna þessu starfi en honum var sagt upp af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Sigurður Már Jónsson var ráðinn í hans stað. Sigurður Már var svo endurráðin af Bjarna Benediktssyni þegar síðasta ríkisstjórn tók við í janúar en sagði starfi sínu lausu sama dag og ný ríkisstjórn tók til starfa.
Ráðning upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar er gerð með sömu heimild í lögum um Stjórnarráð Íslands sem gerir ráðherrum kleift að ráða til sín aðstoðarmenn og ríkisstjórn að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur. Ráðning upplýsingafulltrúans fellur undir seinni lið þessarar málsgreinar og er þess vegna einn af þessum þremur sem ríkisstjórnin getur ráðið handa hverjum ráðherra „ef þörf krefur“.
Katrín Jakobsdóttir hefur þegar ráðið sér tvo aðstoðarmenn, Lísu Kristjánsdóttur og Bergþóru Benediktsdóttur.
Samkvæmt skipuriti forsætisráðuneytisins heyra aðstoðarmenn beint undir forsætisráðherra. Upplýsingafulltrúar annarra ráðuneyta heyra undir skrifstofustjóra ráðuneytanna en ekki beint undir ráðherra hverju sinni. Upplýsingafulltrúar ráðuneyta þurfa þess vegna að vera ráðnir samkvæmt reglum um opinber störf.
Það gildir ekki um upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar.