Stjórnendur og stjórnarmenn Klakka, eignarhaldsfélags, áður Exista, sem heldur utan um 100 prósenta hlut í eignaleigufyrirtækinu Lykli, áður Lýsing, geta fengið samanlagt um 550 milljónir króna í bónus í tengslum við væntanlega sölu á Lykli og vegna annarra eigna félagsins sem hafa verið seldar á síðustu árum.
Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Stærsti eigandi Lykils er bandaríski vogunarsjóðurinn Davidson Kempner en íslenskir lífeyrissjóðir, einkum LSR, Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Birta, eiga einnig samtals um sex prósenta hlut í Klakka.
Í Markaðnum segir að hluthafafundur Klakka hafi samþykkt, síðastliðinn mánudag, tillögu að kaupaukakerfi sem lögð var fram af stjórn félagsins, sem nær til þriggja starfsmanna Klakka og sex manna stjórnar félagsins, en í henni eiga sæti fjórir Íslendingar. Stjórnin var því sjálf að skammta sér bónusum, samkvæmt þessu. Fulltrúi lífeyrissjóðanna var ekki viðstaddur á fundinum, en Kristján B. Thorlacius, hæstaréttarlögmaður og einn stjórnarmanna Klakka, hefur verið studdur af sjóðunum í stjórn félagsins en hann er á meðal þeirra sem bónuskerfið nær til.
Auk Magnúsar Scheving Thorsteinssonar forstjóra eru starfsmenn Klakka þau Jón Örn Guðmundsson fjármálastjóri og Brynja Dögg Steinsen rekstrarstjóri.
Stjórnarformaður Klakka til margra ára er Pétur J. Eiríksson en aðrir Íslendingar, fyrir utan Kristján, sem sitja í stjórninni eru Steinn Logi Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skipta og Húsasmiðjunnar, og Gunnar Þór Þórarinsson, lögmaður hjá Logos.
„Gangi tilteknar forsendur eftir sem kaupaukakerfið grundvallast á, en upphafsdagur þess miðast við 17. mars 2016, gætu heildarbónusgreiðslur til þessara níu stjórnenda félagsins numið allt að 4,42 milljónum evra, jafnvirði tæplega 550 milljóna íslenskra króna. Stjórnendur Klakka gætu því fengið að meðaltali yfir 60 milljónir króna á mann í sinn hlut í bónus,“ segir í umfjöllun Markaðarins.
Leiðrétting: Jón Örn Guðmundsson og Brynja Dögg Steinsen voru sögð starfsmenn Lykils en hið rétta er að þau eru starfsmenn Klakka.