Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld að ábyrg efnhagsstjórn væri lykillinn að því að búa til sjálfbært samfélag. Hún sagði stefnu ríkisstjórnarinnar miðast við þetta, og með þetta að leiðarljósi yrði traustið aukið á Alþingi.
Þá gerði hún sérstaklega að umtalsefni, #Metoo byltingu kvenna að undanförnu, sem hefði ekki síst byrst á samfélagsmiðlum. „Bylting kvenna á samfélagsmiðlum undanfarin misseri rýfur aldalanga þögn. Þar erum við hvergi nærri komin á endastöð. Langtímaverkefnið snýst um að breyta viðteknum skoðunum sem viðhaldið hafa lakari stöðu kvenna um aldir. Eitt kjörtímabil mun einungis vera eitt örstutt spor í þeirri vegferð,“ sagði Katrín, og nefndi sérstaklega að aðgerðaáætlun verði ýtt úr vör sem á að leiða til úrbóta og styrkja innviði réttarvörslukerfisins. „Lögð verður áhersla á fræðslu og forvarnir og bættar aðstæður til að styðja brotaþola um land allt innan heilbrigðiskerfisins. En jafnrétti snýst um margt fleira. Sáttmáli ríkisstjórnarinnar leggur ríka áherslu á jöfn tækifæri – Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Það kallar á margvíslegar aðgerðir sem lúta að því að berjast gegn launamun kynjanna, gera betur í málefnum hinsegin fólks, tryggja samfélagslega þátttöku allra og að efnahagur, búseta, aldur eða fötlun hindri fólk ekki að nýta þau tækifæri sem íslenskt samfélag hefur upp á að bjóða,“ sagði Katrín.
Í ræðu sinni sagðist hún hafa nýtt tímann til að hitta forystufólk á vinnumarkaði að undanförnu, og að það væri hennar trú, að eitt mikilvægasta verkefnið framundan væri að auka samstarf og styrkja efnahagslegan stöðugleika. Þróttmikið efnahagslíf byggist á fjölbreyttu atvinnulífi þar sem áhersla er lögð á aukna þekkingu og verðmætasköpun og sjálfbæra þróun. Undirstöðurnar þurfa að vera traustar; sjálfbær sjávarútvegur og ferðaþjónusta, umhverfisvænn landbúnaður, traust og heilbrigt fjármálakerfi og öflugt rannsókna- og nýsköpunarstarf. Þróttmikið efnahagslíf er nauðsynlegt til að samfélagið geti búið sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum en í framtíðinni mun velmegun á Íslandi þurfa að grundvallast á hugviti, sköpun og þekkingu. „Ég hef nú á fyrstu dögum mínum sem forsætisráðherra hitt forystumenn heildarsamtaka á vinnumarkaði en farsælt samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er forsenda þess að byggja hér upp félagslegan og efnahagslegan stöðugleika. Komandi kjarasamningar munu ráða miklu um efnahagslega þróun komandi missera og ára en þar leggja stjórnvöld áherslu á að til að tryggja megi efnahagslegan stöðugleika sé um leið mikilvægt að treysta hinar félagslegu stoðir og vinna með sem flestum að ábyrgum vinnumarkaði. Meðal annars þarf að endurskoða húsnæðisstuðning hins opinbera og stefna að því að lengja fæðingarorlof og hækka greiðslur, og sömuleiðis er til skoðunar að lækka lægra skattþrep tekjuskattskerfisins við komandi kjarasamningagerð til að bæta kjörin í landinu,“ sagði Katrín.
Hún lauk ræðu sinni á því að vitna í Stefán Þorleifsson, 101 árs, sem var fyrsti maðurinn til að aka í gegnum ný Norðfjarðargöng. „Að hugsa um framtíðina, það eiga allir að gera. Það er skylda hvers manns. Að reyna að skilja þannig við þjóðfélagið að það sé gott fyrir þá sem taka við.“ Höfum þessi orð í huga, nú þegar við hefjum störf okkar á nýju kjörtímabili,“ sagði Katrín.