Hafþór Eide Hafþórsson, 28 ára viðskiptafræðingur, hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Hann hefur þegar hafið störf.
Hafþór hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var formaður Sambands ungra framsóknarmanna árið 2013 og kosningastjóri flokksins í Reykjavík í nýafstöðnum Alþingiskosningum.
Í tilkynningu kemur fram að Hafþór sé með B.Sc próf frá Háskólanum í Reykjavík auk þess sem hann hefur lokið prófi til verðbréfamiðlunar frá sama skóla.
Hafþór er í sambúð með Ármanni Lloyd Brynjarssyni, starfsmanni Icelandair hótela.
Fyrr í dag var greint frá því að Sif Konráðsdóttir og Orri Páll Jóhannsson hafi verið ráðin aðstoðarmenn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Þau hefja störf á næstu dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra réð Iðunni Garðarsdóttur aðstoðarmann sinn í velferðarráðuneytinu á dögunum og Lísa Kristjánsdóttir og Bergþóra Benediktsdóttir voru ráðnar aðstoðarmenn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.
Enn eru sömu aðstoðarmenn hjá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og í síðustu ríkisstjórn. Ásmundur Einar Daðason og Sigurður Ingi Jóhannsson eiga enn eftir að tilkynna um hverjir verða aðstoðarmenn þeirra.