Ekkert hefur þokast í launadeilu flugvirkja hjá Icelandair en kjarasamningar hafa verið lausir frá því í haust og stefnir allt í að verkfall hefjist á sunnudag, eins og boðað hefur verið ef ekki tekst að ná samningum.
Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að krafa flugvirkja sé sú að hækka um 20 prósent í launum, en Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að kröfurnar séu óraunhæfar með öllu.
Í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag segir hann að ekki sé hægt að verða við kröfunum, því þá myndi allur vinnumarkaðurinn komast í uppnám. „Boðaðar verkfallsaðgerðir Flugvirkjafélagsins, vegna flugvirkja hjá Icelandair, munu hafa áhrif á um 10.000 farþega hvern dag sem verkfall varir. Flugvirkjum hjá Icelandair stendur til boða launahækkun í samræmi við það sem aðrir í samfélaginu fá. Með verkfallshótun á viðkvæmasta tíma er stéttarfélag þeirra að reyna að þvinga fram kauphækkanir langt umfram það. Aðilar vinnumarkaðar hafa dregið línu í sandinn og frá henni verður ekki hvikað. Ástæðan er einföld: Ef á kröfurnar yrði fallist myndu niðurstöður slíks samnings hellast yfir allan vinnumarkaðinn og kippa stoðunum undan efnahagslegum stöðugleika,“ segir Halldór Benjamín.
Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að samninganefnd Icelandair sé frekar róleg yfir stöðu mála en hann sé farinn að setja sig í stellingar fyrir verkfall á sunnudag.
Halldór Benjamín segir að kjarasamningarnir sem séu framundan séu afar mikilvægir. Þeir geti haft áhrif á umgjörð atvinnulífsins horft til langrar framtíðar. „Niðurstöður þeirra munu ákvarða hvort hér á landi verður stöð- ugleiki eða ekki. Það er ábyrgðarhluti sem atvinnurekendur, hið opinbera og viðsemjendur þeirra standa frammi fyrir. Sú ábyrgð nær einnig til Flugvirkjafélagsins. Launahækkanir umfram getu efnahagslífsins valda verðbólgu. Frekari skerðing en þegar er orðin á samkeppnisstöðu atvinnulífsins, vegna mikillar hækkunar launakostnaðar undanfarin ár og styrkingar krónunnar, er ekki sjálfbær, stuðlar að viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Það gerðist síðast á uppgangsárunum 2004-2007 og hefur ítrekað gerst á árum áður. Ójafnvægið leiðréttist ávallt með gengisfalli krónunnar, verðbólgu og rýrnun lífskjara. Þessi leið er fullreynd og finna má mýmörg dæmi um hana í hagsögu Íslands,“ segir Halldór Benjamín.