Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun í mars leggja fram frumvarp sem felur í sér breytingar á lögum um launasjóðs stórmeistara í skák. Breytingin gerir ráð fyrir því að í stað launagreiðslna til stórmeistara í skák komi til greiðslur að fyrirmynd listamannalauna. Þetta kemur fram á þingmálaskráríkisstjórnarinnar sem gerð var opinber í dag.
Íslenska ríkið hefur greitt stórmeisturum í skák mánaðarleg laun frá því að sérstök lög þess efnis voru samþykkt árið 1989. Svavar Gestsson, þáverandi menntamálaráðherra, lagði frumvarpið fram.
Samkvæmt reglugerð greiðast laun stórmeistara mánaðarlega og taka mið af launum lektora við Háskóla Íslands. Samkvæmt launatöflum akademískra starfsmanna frá því í júní 2017 eru lágmarkslaun lektora 489.779 krónur á mánuði og hámarkslaun þeirra geta numið 876.592 krónum á mánuði.
Í reglugerð mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að þeir sem njóti launa úr sjóðnum „skulu ekki vera fastráðnir til þess að gegna öðru starfi sem telst meira en þriðjungur úr stöðugildi meðan þeir fá greidd laun. Stórmeistari skal gera stjórn sjóðsins grein fyrir starfshlutfalli í öðrum störfum.“
Þurfa að skila af sér 70 tíma vinnuskyldu
Rétt til úthlutunar úr Launasjóði stórmeistara eiga skákmenn sem öðlast hafa stórmeistaratitil alþjóðaskáksambandsins FIDE og „helga sig skáklistinni“. Stórmeistararnir sem hafa þegið laun úr þurfa þó að inna af hendi kennslu við framhaldsdeild Skákskóla Íslands eða sinna öðrum verkefnum á vegum skólans eftir því sem stjórn Skákskólans ákveður.
Í reglugerð ráðuneytisins segir: „Vinnuskylda stórmeistara við kennslu og fræðslustörf, skal ákvarðast af stjórn Skákskólans í samráði við viðkomandi stórmeistara. Hún skal vera að lágmarki 70 tímar árlega auk undirbúnings og getur verið fólgin í öðrum þáttum en beinni kennslu svo sem námskeiðahaldi, fjöltefli, fyrirlestrum og aðstoð við undirbúning fulltrúa Íslands fyrir keppni. Stórmeistara ber að hafa samráð við stjórn Skákskólans ef þátttaka í móti kemur í veg fyrir að kennsluskyldu sé sinnt. Skipuleggja aðilar þá hvernig bætt sé úr því. Stórmeistara sem nýtur launa úr sjóðnum ber að tefla fyrir Íslands hönd þegar Skáksamband Íslands velur hann til keppni og á Skákþingi Íslands nema lögmæt forföll hamli.“