Samtök ferðaþjónustunnar segja það óásættanlegt ef til verkfalls komi hjá flugvirkjum, en það hefst 17. desember næstkomandi, ef ekki verður búið að leysa úr kjaradeilu þeirra með samningum.
Í tilkynningu segir að verkfallið setji samgöngur í uppnám og „stefni þeim í voða“. Í tilkynningunni segir að ferðaþjónustan eigi mikið undir, og það skipti miklu máli fyrir þjóðarbúið að halda samgöngum góðum til og frá landinu.
Í fyrra voru gjaldeyristekjur þjóðarbúsins vegna ferðaþjónustunnar 463 milljarðar króna, eða sem nemur um 39 prósent af heildinni. Samtök ferðaþjónustunnar segja mikið í húfi, og hvetja til þess að verkfalli verði afstýrt.
Yfirlýsingin er eftirfarandi í heild sinni:
„Flugvirkjafélag Íslands hefur boðað til ótímabundins verkfalls frá og með nk. sunnudegi 17. desember náist ekki samningar. Komi til verkfalls mun það strax hafa gríðarleg áhrif, en ætla má að aðgerðirnar muni raska flugi hjá 10 þúsund farþegum dag hvern sem aðgerðir flugvirkja standa.
Frá því árið 2009 hefur Flugvirkjafélag Íslands boðað til verkfalls á u.þ.b. eins og hálfs árs fresti með tilheyrandi óvissu og höggi fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi. Það segir sig sjálft að slíkt vinnumarkaðslíkan gengur ekki upp og er fullreynt. Tryggja verður stöðugt rekstrarumhverfi greinarinnar til framtíðar. Það er umhugsunarefni hvernig fámennir hópar í kjarabaráttu geta ítrekað komið ferðaþjónustunni í uppnám.
Jól og áramót eru handan við hornið, en Ísland sem áfangastaður fyrir ferðamenn yfir hátíðirnar hefur verið að styrkjast á undanförnum árum. Ferðaþjónustan er afar viðkvæm atvinnugrein, sérstaklega á landsbyggðinni, og má við litlum áföllum ásamt því að afleiddar atvinnugreinar eiga mikið undir að flugsamgöngur til og frá landinu séu greiðar.
Verkfallshótun flugvirkja hefur þegar valdið miklum óróa meðal fjölmargra fyrirtækja í ferðaþjónustu og hafa afbókanir þegar borist ásamt því að ferðaheildsalar eru uggandi. Umræðan ein og sér hefur þannig þegar haft áhrif. Tryggar samgöngur til og frá landinu er eitthvað sem verður að vera hægt að treysta á.
Ferðaþjónustan er stærsta útflutningsatvinnugrein landsins. Á síðasta ári námu gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu um 39% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, eða 463 milljörðum króna. Á sama tíma áætla SAF að beinar, nettó, tekjur ríkis og sveitarfélaga af greininni hafi numið um 54 milljörðum. Þá eru óbein áhrif greinarinnar mikil og því mun stöðvun flugs þess félags sem flýgur með 10 þúsund ferðamenn á dag, og hefur mesta markaðshlutdeild, hafa mikil neikvæð áhrif á hagkerfið í heild sinni. Á hverjum degi sem verkfall stendur yfir er fjárhagslegt tjón fyrir þjóðarbúið því gífurlegt.
Samtök ferðaþjónustunnar hvetja samningsaðila til að leita allra leiða til að ná sáttum í deilunni sem fyrst og eyða þannig óvissu fyrir ferðaþjónustuna og landsmenn alla. Ábyrgð samningsaðila er mikil, enda er flug aðal samgöngumáti ferðamanna til og frá landinu.
SAF treysta því að samningar náist sem allra fyrst þannig að ekki komi til aðgerða af hálfu flugvirkja sunnudaginn 17. desember.“