Lagardère Travel Retail hefur farið þess á leit við sýslumannsembættið á höfuðborgarsvæðinu að lögbann verði lagt á afhendingu Isavia á trúnaðargögnum um fyrirtækið til þriðja aðila sem Isavia hefur í sinni vörslu í kjölfar samkeppni um leigu á aðstöðu undir verslunar- og veitingarekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2014.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Segir jafnframt að um sé að ræða viðkvæmar fjárhagsupplýsingar og viðskiptaskilmála um starfsemi Lagardère. Afhending gagnanna væri brot á trúnaðarskyldu Isavia við Lagardère en einnig á samkeppnislögum.
Lagardère tók þátt í útboði ásamt fleiri fyrirtækjum, innlendum og erlendum um leigu á aðstöðu undir verslunar- og veitingarekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vorið 2014. Aðrir þátttakendur voru meðal annars Icelandair, Joe & the Juice, SSP frá Bretlandi auk fjölda annarra fyrirtækja. Lagardère og fleiri aðilar voru valdir sem rekstraraðilar í þeirri samkeppni og hefur nú rekið veitinga- og kaffihús á flugstöðinni í rúmlega tvö ár.
Í útboðinu fékk Kaffitár ekki að leigja áfram verslunarrými í Leifsstöð. Aðalheiður Héðinsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Kaffitárs, var ósátt við að fyrirtækið hefði ekki fengið verslunarrými í kjölfar útboðsins og skoðaði hún réttarstöðu sína í kjölfarið og krafðist gagna um útboðið frá Isavia.
Kaffitár fær hluta af gögnum
Í úrskurði sem féll þann 2. nóvember síðastliðinn var fallist á að Kaffitár fengi hluta af gögnunum um útboðið óyfirstrikuð en að hluta var fallist á Isavia þyrfti ekki að veita fyrirtækinu aðgang að öllum gögnunum í málinu.
Aðalheiður sagði í viðtali við Stundina í nóvember síðastliðnum að Isavia hefði sótt um frestun réttaráhrifa vegna úrskurðarins og að það þýddi að ríkisfyrirtækið muni ekki þurfa að veita Kaffitári aðgang að gögnunum strax. „Isavia hefur farið fram á frestun réttaráhrifa, alveg eins og þeir hafa gert áður. Þetta er áttundi úrskurðurinn sem kemur og alltaf er þetta okkur í vil,“ sagði Aðalheiður við Stundina.
Mótmæla afhendingu frekari gagna
Í tilkynningu frá Lagardère segir að öll hin fyrirtækin, sem öll séu í samkeppnisrekstri, hafi skrifað undir ákvæði um trúnaðarskyldu við Isavia um meðferð viðskipta- og fjárhagsupplýsinga. „Isavia hefur þó engu að síður nú þegar afhent mikið magn viðkvæmra trúnaðargagna um fyrirtækin til keppinautar þeirra þar sem þó var, eftir tilmæli frá Samkeppniseftirlitinu, strikað yfir viðkvæmustu upplýsingarnar. Samkeppniseftirlitið ályktaði að afhending þeirra kynni að fela í sér röskun á samkeppni.
Öll þau gögn, sem þegar er búið að afhenda, ættu að nægja til að varpa ljósi á hvað eina sem gerðist í aðdraganda og eftir forvalið árið 2014, en ekkert hefur komið fram um að eitthvað misjafnt, óeðlilegt eða ólöglegt hafi átt sér stað. Nú er svo komið að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kveðið á um að Isavia skuli ganga enn lengra og afhenda þriðja aðila trúnaðargögn um fjárhag og rekstur Lagardère í heild sinni, án yfirstrikana,“ segir í tilkynningunni.